Fimmtán óbirt ljóð Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi, rituð eigin hendi, voru auglýst til sölu í Finni, aukablaði Morgunblaðsins, í gær.
Það er Þorvaldur Þór Maríuson fornbókasali sem auglýsti þau til sölu en þau komu upp í hendurnar á honum þegar hann keypti bókasafn úr dánarbúi. Það voru ættingjar vinar Davíðs sem áttu það, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
„Þetta var inni í ljóðabók Davíðs, Kvæði, sem kom út 1922. Hann virðist hafa gefið vini sínum þá bók og handskrifar líka eitt ljóð inn í hana. Þetta eru í raun sextán óbirt ljóð, með því sem er í bókinni. Bréfið var geymt inni í bókinni og er það fjögur blöð með fimmtán ljóðum á en skrifað er báðum megin á blöðin og þau merkt 1, 2, 3 og 4. Þetta er bara einkabréf í bundnu máli, ljóð sem Davíð sendi vini sínum og fjalla um dagleg málefni. Hann skrifar undir þetta Davíð frá Fagraskógi. Rithöndin og stíllinn eru dæmigerð fyrir hann,“ segir Þorvaldur um ljóðafundinn.