Alþjóðlegi dýraverndunarsjóðurinn (IFAW) ætla að hvetja ferðamenn sem sækja Ísland heim í sumar til að vernda hvali með því að borða ekki hvalkjöt. Herferðin hefst formlega á morgun undir heitinu „Meet US Don't Eat Us“.
IFAW mun taka höndum saman með Hvalaskoðunarsamtökum Íslands, Icewhale, og hvetja ferðamenn til að fara í hvalaskoðunarferðir en sleppa því að leggja sér hvalkjöt til munns á veitingastöðum.
IFAW er á móti hvalveiðum sem samtökin segja að séu grimmilegar.
Robbie Marsland, stjórnandi IFAW í Bretlandi, segir að samtökin hafi áhyggjur af því að um 40% ferðamanna sem heimsæki Ísland séu hvattir til að bragaða á hvalkjöti undir því yfirskyni að það sé þjóðlegur réttur. Hann segir að aðeins um 5% Íslendinga borði hvalkjöt. Þar af leiðandi sé verið að veiða og drepa fjölmarga hvali árlega í þeim eina tilgangi að leyfa ferðamönnum að bragða á kjötinu.