Í fyrrasumar leiddu þurrkar í Rússlandi til hækkunar á hveitiverði á heimsmörkuðum. Nú glíma Kínverjar við þurrka og hefur uppskerubresturinn sem honum fylgir enn á ný vakið umræður um stöðu matvælaframleiðslu í heiminum.
Íslendingar hafa áður horft fram á verðsveiflur á matvörumörkuðum. Nú eru hins vegar teikn á lofti um að gríðarleg eftirspurn eftir hrávörum frá Asíu sé að leiða til nýrrar stöðu, sem og stöðug aukning í eftirspurn frá öðrum heimshlutum þar sem fjölmennar millistéttir eru að verða til.
Rætt er við Jón Orm Halldórsson, einn helsta sérfræðing Íslendinga í hagsögu Asíu, í Morgunblaðinu í dag. Hann bendir á að síðustu áratugi hafi „kaupmáttur á Vesturlöndum ... vaxið mjög mikið út af tiltölulega lækkandi hráefnaverði og enn frekar vegna lækkandi verðs á iðnframleiðslu“.