Lífeyrissjóðir greiða 40%

Meirihluti efnahags- og skattanefndar Alþingis leggur til að lífeyrissjóðir beri 40% og viðskiptabankarnir þá afganginn af tímabundnum skatti, sem á að leggja á til að fjármagna sérstaka vaxtaniðurgreiðslu á þessu og næsta ári. 

Í frumvarpi um ráðstafanir í ríkisfjármálum, sem Alþingi fjallar nú um, segir að  lífeyrissjóðirnir og fjármálafyrirtækin hafi skuldbundið sig til þess að fjármagna útgjöld vegna vaxtaniðurgreiðslunnar, sem talin er kosta um 6 milljarða króna á ári. Því er gert ráð fyrir þessum tímabundna skatti, sem á að skila 3,5 milljörðum króna á þessu ári og að kostnaðarskipting sjóðanna og viðskiptabankanna verði jöfn.   

Í umsögn meirihluta efnahags- og skattanefndar segir, að Landssamtök lífeyrissjóða, Samtök fjármálafyrirtækja, aðilar vinnumarkaðarins og fleiri hafi mótmælt þessum skattlagningaráformum. Hvorki sjóðirnir né fjármálafyrirtækin hafi gengist við því á fundum nefndarinnar að hafa samþykkt að bera umræddan kostnað með þessum hætti.

Þeir  hefðu fallist á að leita leiða við fjármögnun verkefnisins en það myndi byggjast á gagnkvæmu samkomulagi við ríkið en ekki einhliða ákvörðun ríkisins um töku skatts.

Lífeyrissjóðirnir hefðu með þeim hætti boðist til þess að standa undir sem næmi ¼ af umræddum sex milljörðum eða um 1500 milljörðum króna.

Breytingartillaga þingnefndarinnar byggir á tillögum fjármálaráðuneytisins. Í áliti nefndarinnar er þeirri skoðun lýst, að skattlagningin sé reist á málefnalegum forsendum þar sem henni sé ætlað að standa undir almennri aðgerð til lausnar á skuldavanda heimila. Fjármögnun verkefnisins rúmist ekki endilega innan fjárfestingarheimilda lífeyrissjóða eða krafna um arðsemi í rekstri fjármálafyrirtækja. Samt sem áður megi ætla að aðilarnir hafi haft ávinning af aðgerðunum og að ekki sé ósanngjarnt að þeir taki á sig beinan kostnað vegna þeirra.

Álit meirihluta efnahags- og skattanefndar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka