Hagsmunasamtök heimilanna skora á Alþingi að fella strax úr gildi lög um gengistryggð lán sem sett voru í lok síðasta árs. Jafnframt vilja samtökin að lögin verði tekin til endurskoðunar fyrir áætluð þinglok, 9. júní 2011.
Lögin sem um ræðir eru lög nr. 151/2010 um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, lögum um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins og lögum um umboðsmann skuldara. Að sögn stjórnvalda voru lögin sett í þeim tilgangi að færa öllum lántökum gengistryggðra lána ávinning til samræmis við dómsniðurstöðu Hæstaréttar.
Þá skora samtökin á embætti Umboðsmanns skuldara að krefja fjármálafyrirtæki um brýnar úrbætur á endurútreikningum ólöglegra gengistryggðra lána.
Í tilkynningu frá samtökunum segir að á lögunum séu alvarlegir meinbugir. Afleiðingarnar séu að innheimta banka og sparisjóða á endurútreiknuðum lánum brjóti í bága við meginreglur kröfuréttar, neytendaverndar og jafnvel stjórnarskrá. Auk þess ríki fullkomin óvissa um réttmæti laganna samkvæmt reglum evrópska efnahagssvæðisins og þeim Evróputilskipunum sem hafa verið innleiddar í íslensk lög.
Úrbætur sem Umboðsmaður skuldara á að kalla eftir skuli miða að því að fjármálafyrirtæki styðjist við eina samræmda og gagnsæja aðferð við endurútreikninga, í samræmi við lög, Evróputilskipanir og góða viðskiptahætti.
Hagsmunasamtök heimilanna hafa nú sent kvörtun til ESA varðandi umrædd lög. Telja samtökin að stöðva beri ólögmæta innheimtu fjármálafyrirtækja á grundvelli laganna strax. Á meðan endurskoðun laganna fari fram skuli fjármálafyrirtækjum gert skylt að hverfa frá öllum innheimtuaðgerðum er þau varða.