Frumvörpin um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu eru sjómönnum ofarlega í huga á sjómannadegi, sem er á morgun.
Konráð Alfreðsson, formaður Sjómannafélags Eyjafjarðar, segir blikur á lofti og „frumvörpin eru eitthvað það ósanngjarnasta sem sett hefur verið fram,“ segir hann í fréttaskýringu um þessi mál í Morgunblaðinu í dag.
Verði þau að lögum komi til uppsagna hjá sjómönnum, sem gert hafi sjómennsku að ævistarfi. Skipum og sjómönnum hafi fækkað á síðustu árum og flotinn dugi til að sækja þær heimildir sem séu til skipta, segir Konráð.
Valmundur Valmundarson, formaður Jötuns í Vestmannaeyjum, hefur líka áhyggjur af áformum stjórnvalda. „Okkur líst ekkert á stöðuna og hækkað veiðigjald þýðir að sjómenn bera minna úr býtum,“ segir Valmundur.