Góð þátttaka var í kvennahlaupinu sem fór fram víðs vegar um landið í dag.
Samkvæmt upplýsingum frá ÍSÍ tóku um 15.000 konur þátt á 84 stöðum út um allt land og á um 18 stöðum erlendis. Um 5000 konur hlupu í Garðabænum, 1700 í Mosfellsbæ sem er um 400 fleiri en í fyrra, 650 á Akureyri og um 400 konur erlendis.
Boðið var upp á mismunandi vegalengdir allt frá 2 km upp í 20 km.
Mikil og góð stemming var hjá þátttakendum þar sem ömmur, mömmur, dætur og vinkonur hreyfðu sig og skemmtu sér saman. Fyrir þær konur sem ekki gátu tekið þátt í dag, 4.júní, verður Kvennahlaupið haldið í Ölfusi 16. júní og í Þykkvabæ 17. júní.
Á Seyðisfirði gátu þátttakendur valið um þrjár vegalengdir, 3km, 5km, og 20km. Þrjár konur fóru 20 km og lögðu þær af stað kl. 7:30 og komu í mark kl. 10:30.