Landlæknisembættið segir, að 51 læknir hafi verið sérstaklega til skoðunar á síðasta ári vegna útgáfu lyfjaávísana á sjálfa sig. Segir embættið, að ef ekki liggi fyrir eðlileg skýring fyrir ávísunum lækna á lyf fyrir sjálfa sig sé brugðist við því.
Þá segir embættið, að á síðasta ári hafi verið skráð samtals 1641 tilefni uppflettinga í lyfjagagnagrunni. Alls voru 858 fyrirspurnir vegna ábendingar og/eða fyrirspurnar læknis, 552 vegna afgreiðslu lyfjaskírteina, 134 vegna reglubundins eftirlits embættisins, en einnig komu til ábendingar annarra, s.s. aðstandenda, lögreglu og stofnana sem fjalla um lyfjamál.
Landlæknisembættið segir ljóst, að með tilkomu lyfjagagnagrunns hafi möguleikar embættisins til eftirlits batnað til muna og að notkun hans hafi haft jákvæð áhrif á ávísanir tiltekinna lyfja þó að enn sé töluvert um misnotkun lyfseðisskyldra lyfja í þjóðfélaginu.
„Misnotkun lyfseðisskyldra lyfja verður aðeins fyrirbyggð með samstilltu átaki lækna og umsýsluaðila lyfja og öflugu eftirliti. Fjölgun lækna sem leitar eftir upplýsingum úr lyfjagagnagrunni um lyfjanotkun, áður en lyfjum er ávísað, er því jákvæð þróun," segir á vef embættisins.