Atlaga að sjávarútvegi

Ragnar Árnason.
Ragnar Árnason. mbl.is/Árni Sæberg

Ragnar Árnason, prófessor í fiskihagfræði, sagði í sjómannadagsávarpi á Grandagarði í Reykjavík í dag, að frumvörp ríkisstjórnarinnar um stjórn fiskveiða væru atlaga að sjávarútvegi sem grunnstoðar efnahagslífs Íslands og muni kollvarpa stjórnkerfi fiskveiða.

„Nái þau fram að ganga munu allir tapa, íslenskur sjávarútvegur mun hverfa aftur til fyrra skipulags, ofsóknar, styrkja- og uppbótarkerfis og reglulegra gengisfellinga. Hann mun dragast aftur úr sjávarútvegi nágrannalandanna, markaðir munu tapast. Geta íslenskra fyrirtækja til að hasla sér völl í fiskveiðum utan landhelgi mun hverfa. Þetta mun óhjákvæmilega hafa í för með sér tekjuskerðingu fyrir sjómenn og byggðarlög," sagði Ragnar.  

Hann bætti við að háar fjárhæðir muni fara í tvær áttir. Annars vegar verði fé sóað á altari ofsóknar og samkeppni um fiskafla og óhagkvæmari rekstrar. Hins vegar hyggist stjórnvöld draga háar fjárhæðir út úr sjávarútveginum til að fjármagna ríkisreksturinn í Reykjavík og millifærslukerfið sem þar hefur verið byggt upp.

„Því verður seint trúað að Alþingi Íslendinga, sem er kjörið til að efla Ísland bæta hag landsmanna   muni vilja standa að þessari öfugþróun," sagði Ragnar.

Fram kom hjá Ragnari að sjávarútvegurinn væri undirstaða íslenska efnahagslífsins og aflaði gjaldeyristekna, sem stæðu undir nánast helmingi af innflutningi landsmanna. Án þessa innflutnings væri erfitt að lifa á Íslandi og tekjur af sjávarútvegi borguðu fyrir stóran hluta af stjórnkerfi, mennta- og menningarlífi Íslendinga. Rannsóknir fræðimanna hefðu sýnt, að sjávarútvegur stæði beint eða óbeint undir 25-30% af landsframleiðslunni.

Allt hvíldi þetta á sjómönnum, sem væru líklega um 4000 talsins eða 2-3% af vinnandi fólki á landinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert