Fyrsti laxinn er kominn úr Norðurá á þessu sumri. Ásmundur Helgason, stjórnarmaður í Stangveiðifélagi Reykjavíkur, veiddi laxinn, sem var 84 sentimetra löng nýgengin hrygna.
Ásmundur setti í laxinn á svonefndu Stokkhylsbroti. Laxinn tók heimasmíðaða flugu Ásmundar, sem nefnist Glaði tvíburinn. Eftir um 20 mínútna viðureign landaði Ásmundur laxinum en klukkan var þá 9:13. Eftir að fiskurinn hafði verið mældur var honum sleppt í ána. Talið er að hann hafi verið 13-15 pund á þyngd.
Skömmu áður en laxinn tók hafði Ragnheiður Thorsteinsson, veiðifélagi Ásmundar, sett í lax á sama stað en hann fór strax af önglinum.
Nóg vatn er í Norðurá að þessu sinni. Aðstæður til veiði nú eru hins vegar ekki góðar, um 5 stiga hiti og kalsarigning og vatnið er 6 gráðu heitt. Reiknað er með að veiðin glæðist þegar líður á daginn og fer að hlýna.
Veiði hófst einnig í Blöndu í morgun og þar er Þórarinn Sigþórsson, tannlæknir m.a. við veiðar. Þar hafði ekkert veiðst síðast þegar fréttist.