„Fullveldi þjóðar og fullveldi Íslendinga yfir miðunum, fiskiauðlindinni, er forsenda fyrir öflugri byggð á Íslandi. Við látum ekki fiskimiðin okkar af hendi, hvorki til ríkjasambanda né fyrirtækja. Þau eru miðin okkar," sagði Jón Bjarnason, sjávarútvegsráðherra, í ávarpi á hátíðardagskrá Sjómannadagsráðs í Reykjavík.
Jón sagði, að þótt umræðan um stjórn fiskveiða virki hörð á köflum, þá sé jafnvíst að minna bæri í milli en sýnst gæti í fyrstu.
Hann sagði, að í sjávarútvegssamfélagi Íslendinga væri samofinn sá samhljómur, sem þyrfti að vera um þá samfélagsuppbyggingu og það Ísland, sem Íslendingar vilja byggja og sátt sé um.
„Ríkisstjórnin hefur nú lagt fram fyrir Alþingi viðamiklar lagabreytingar á því fyrirkomulagi, sem er í sjávarútveginum. Undanfarna áratugi hefur á hverju ári verið vakandi sú umræða að íslensku sjávarplássin hafi farið halloka fyrir ósveigjan markaðslögmálum í tilflutningi aflaheimilda og yfirráða yfir miðum landsins. Hér eiga samfélögin sjálf, íbúarnir þar, mikinn rétt sem er fólginn í fengsælum fiskimiðum við strönd byggðarlagsins og þann rétt ber okkur að virða. Sátt um það kerfi, sem ríkja þarf í sjávarútvegi næst þá fyrst þegar við hugum fyrir alvöru að þessum þáttum málsins," sagði Jón.
Fram kom í máli Guðmundar Hallvarðssonar, formanns Sjómannadagsráðs, að engin banaslys hefðu orðið á sjó frá síðasta sjómannadegi.
Væri það aðeins annað árið frá því byrjað var að halda sjómannadaginn hátíðlegan árið 1938, sem allir sjómenn komu heilir heim.