Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands tekur í dag þátt í hátíðarhöldum í tilefni sjómannadagsins á Patreksfirði. Forseti verður fyrir hádegi viðstaddur þegar blóm verða lögð að minnisvarða um látna sjómenn og sækir sjómannadagsmessu í Patreksfjarðarkirkju.
Þá mun Ólafur Ragnar flytja hátíðarræðu dagsins á útisamkomu sem hefst klukkan 14. Að sögn skrifstofu forseta Íslands mun Ólafur Ragnar fjalla um mikilvægi sjósóknar, sjávarútvegs og fiskvinnslu fyrir íslenskt samfélag sem og hetjudáðir við björgun úr sjávarháska undan vestfirskum ströndum.
Þá muni Ólafur Ragnar víkja að nauðsyn þess að sátt ríki um skipulag fiskveiða og fiskvinnslu og að stjórnskipulag þeirra mála efli hag sjávarbyggða og atvinnulíf á landsbyggðinni.