Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sagði í sjómannadagsræðu á Patreksfirði í dag, að umræða um stjórnkerfi fiskveiða þurfi hvorki að vera löng né flókin.
„Hvernig mun Vestfjörðum og öðrum sjávarbyggðum vegna í nýrri skipan? Bendi svarið til verri stöðu hefur smíði kerfisins líklega brugðist," sagði hann.
Ólafur Ragnar sagði, að skipan fiskveiðistjórnar sé mjög á dagskrá og um hana deilt eins og löngum áður.
„Vafasamt er að forsetinn eigi að hætta sér inn á þann vettvang – nóg er nú samt kunna sumir að segja! Þó er það þannig að gamall Vestfirðingur sem kemur á sjómannadaginn á Patreksfirði hlýtur að beina huganum að þeim leiðarvísi sem Vestfirðir færa öllum sem kallaðir eru til ákvarðana um skipan veiða og vinnslu," sagði Ólafur Ragnar.
Hann sagði, að stjórnkerfi veiða sé vel sniðið þegar það skapar arð og umsvif í byggðum sem liggja vel að miðum og búa ríkulega að kunnáttu í þessum greinum.
„Vestfirðir eru prýðilegur prófsteinn á kosti og galla sérhvers kerfis fiskveiðistjórnunar. Sú skipan ein mun reynast farsæl til lengdar sem stuðlar að öflugum sjávarútvegi hér fyrir vestan, vexti og viðgangi byggðanna, styrkir búsetu og mannlíf í bæjarfélögum sem liggja vel við miðum og eru rík að verkkunnáttu og fagmennsku í sjávarútvegi, sjómennsku og fiskverkun.
Því er málið í rauninni einfalt; umræðan þarf hvorki að vera löng né flókin. Hvernig mun Vestfjörðum og öðrum sjávarbyggðum vegna í nýrri skipan? Bendi svarið til verri stöðu hefur smíði kerfisins líklega brugðist. Slíkur er í raun kjarni málsins og vert að árétta hann á sjómannadaginn," sagði Ólafur Ragnar.
Hann sagði að einnig væri áríðandi að um greinina náist varanleg sátt því þjóðin hafi ekki efni á langvarandi átökum um stjórnun fiskveiða.
„Það eru ekki aðeins íslenskir sjómenn og fólkið í fiskvinnslunni sem eiga slíkt inni hjá þeim sem kjörnir eru til ábyrgðar heldur þarf þjóðin líka í upphafi endurreisnar á því að halda að sjávarútvegur í öllum byggðum fái að blómstra, sýna getu sína almenningi til farsældar."