50% meiri sýklalyf en í Svíþjóð

Mynd úr myndasafni.
Mynd úr myndasafni.

Árið 2009 var sala á sýklalyfjum hér á landi 50% meiri en í Svíþjóð,  20% meiri en í Danmörku og 12% meiri en í Noreg. Sala lyfjanna var áþekk hér og í Finnlandi.

Þetta kemur fram í svari Guðbjarts Hannessonar, velferðarráðherra við fyrirspurn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar þingmanns um sýklalyfjanotkun.

Sala sýklalyfja hefur verið nokkuð stöðug hér á landi frá árinu 1993 og hefur mælst 20 - 23 skilgreindir dagskammtar á hverja 1000 íbúa á þessu tímabili.

 Sala sýklalyfja hefur farið vaxandi á öllum hinum Norðurlöndunum síðustu árin nema á Íslandi og í Svíþjóð.

Minnst var salan á árunum 2000-2003 en mest á árunum 2004-2008.

Í svarinu segir að vel sé fylgst með ávísunum einstakra sýklalyfja og þróun notkunar á þeim.

Spurður að því hvort hann hafi áhyggjur af notkun sýklalyfja svarar ráherra því til að full ástæða sé til þess. Vissulega hafi notkun sýklalyfja valdið byltingu í meðferð alvarlegra og lífshættulegra sjúkdóma, en hins vegar geti notkun sýklalyfja leitt af sér ónæmi og þol sýklanna fyrir lyfjunum.

Margar bakteríur séu nú orðnar vel þolnar gagnvart sýklalyfjum þannig að fólk hafi um færri lyf að velja.    

„Hér á landi er það lögum samkvæmt hlutverk sóttvarnalæknis að fylgjast með notkun sýklalyfja og sýklalyfjaónæmis. Sýklalyfjagrunnur hefur nýlega verið tekinn í gagnið og gefur hann áreiðanlegar upplýsingar um ávísanir á sýklalyf og auknar upplýsingar um heildarnotkun sýklalyfja. Einnig er fylgst vel með notkun sýklalyfja á stofnunum,“ segir í svarinu.

„Í þessu sambandi er rétt að geta þess að náið samstarf er milli heilbrigðisyfirvalda á Íslandi og Sóttvarnastofnunar Evrópusambandsins (ECDC) um skynsamlega notkun sýklalyfja og baráttu við að halda sýklalyfjaónæmi í skefjum. Á Íslandi er þannig hvatt til þess að sýklalyf séu notuð með ábyrgum hætti. Lögð er áhersla á sýkingavarnir á heilbrigðisstofnunum og fylgst er með tíðni sýkinga sem tengjast heilbrigðisþjónustunni. Einnig er fylgst með notkun sýklalyfja innan stofnana og utan í því skyni að greina þróunina og hvernig hún tengist myndun sýklalyfjaónæmis.“

Svar Velferðarráðherra

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert