Fjarðaál flutti í fyrra út ál fyrir tæplega 790 milljónir dollara, sem svarar til 94 milljarða króna miðað við gengi bandaríkjadollars í desember síðastliðnum. Ársframleiðsla Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði er um 346 þúsund tonn af áli til útflutnings, í formi hreins gæðaáls, álblanda og álvíra.
Í nýútgefnu staðreyndaskjali Fjarðaáls segir að verðmæti útflutningsins hafi numið rúmlega 250 milljónum króna hvern dag. Um 33% útflutningstekna fyrirtækisins hafi orðið eftir í landinu, eða rúmlega 31 milljarður króna.
Í staðreyndaskjalinu segir einnig að fyrirtækið hafi greitt um 4,3 milljarða króna í laun og launatengd gjöld á árinu 2010 og meðallaun starfsmanna hafi numið 6,9 milljónum króna á árinu.
„Auk þess keypti álverið vörur og þjónustu innanlands fyrir um tíu og hálfan milljarð og 1,1 milljarður króna var greiddur í opinber gjöld til ríkis og sveitarfélagsins Fjarðabyggðar í formi fasteignagjalda, hafnargjalda, orkuskatts og fyrirframgreidds tekjuskatts samkvæmt samningi við ríkið. Starfsfólk Fjarðaáls greiddi um 1,3 milljarða króna í tekjuskatt og útsvar.“