Fífldirfska en ekki kjarkur

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Ernir

„Það er skemmst frá því að segja að það hefur ekki einn einasti þeirra sem komið hafa fyrir nefndina sem telur þetta frumvarp viðunandi. Gagnrýnin á það hefur verið mjög grimm,“ segir Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, um umræður í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd Alþingis um litla frumvarpið svonefnt um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu þar sem hann situr.

Einar segir að gagnrýnin á frumvarpið frá umsagnaraðilum hafi meðal annars snúið að því að það stangaðist í vegamiklu atriðum á við stjórnarskrána, ennfremur að það muni leiða til þrýstings á gengi krónunnar niður á við og að minnsta kosti tefja fyrir styrkingu þess sem sé ein forsenda fyrir nýsamþykktum kjarasamningum.

„Það eru ennfremur mjög miklar athugasemdir frá þeim sem hafa fjallað um þetta mál við allar greinar frumvarpsins og það sem vekur athygli er að enginn þeirra sem til okkar komu, hvort sem það eru stofnanir eða hagsmunaaðilar í sjávarútvegi og er enginn þar undanskilinn, treystir sér til þess að mæla þessu frumvarpi bót,“ segir Einar.

Frumvarpið „algerlega ótækt

Einar segir að frumvarpið sé að sínu mati algerlega ótækt og til marks um slæm vinnubrögð. „Það að láta sér detta það í hug að afgreiða málið á handahlaupum með þessar alvarlegu viðvaranir á bakinu er ekki til marks um kjark heldur fífldirfsku í svona þýðingarmiklu máli.“

Sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd hefur fundað í gær og í dag í samtals tíu klukkutíma og segir Einar engan veginn ljóst hvernig framhald málsins sé hugsað af hálfu ríkisstjórnarinnar. Enn eigi þannig eftir að koma gestir á fund nefndarinnar og efnisleg umræða innan hennar um málið eigi þá eftir að fara fram. 

„Þegar frumvörp eru sett óunnin, óhugsuð og án þess að leitað sé eftir upplýsingum frá þeim sem gerst þekkja í sjávarútvegi þá er auðvitað ekki von á góðu,“ segir Einar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert