„Virðulegu dómarar. Ég lýsi mig saklausan af öllum ákæruatriðum og mun leggja mig fram um að sanna sakleysi mitt ef til efnismeðferðar kemur á þessum vettvangi,“ sagði Geir Haarde, þegar forseti landsdóms bauð honum að taka afstöðu til ákæruatriðanna gegn sér, í dag.
Kvaðst Geir hafa sinnt störfum sínum sem forsætisráðherra af fyllstu ábyrgð. Hann hefði aldrei órað fyrir því að verða einn daginn staddur í þessum sporum. Það sé persónulega þungbært fyrir hann, en þó ekki jafn þungbært og ætla mætti, þar sem hann viti hvað réð för hjá þeim sem ákváðu að málið skyldið höfðað.
Krafðist verjandi hans, Andri Árnason þá frávísunar málsins á grundvelli ákvæða stjórnarskrárinnar, mannréttindasáttmála Evrópu og laga um meðferð sakamála um óhlutdræga og óvilhalla dómstóla, þar sem ákæruvaldið, Alþingi, hefði hlutast til um skipan dómenda með lagabreytingu í vor, sem kvað á um að dómendur skyldu ljúka málinu þótt það yrði rekið eftir að kjörtímabil þeirra væri á enda.
Verjandinn vísaði til 6. greinar laga um meðferð sakamála, og sagði að komin væri upp rökstudd ástæða til að draga óhlutdrægni landsdóms í efa, þar sem afskipti ákæruvaldsins af skipun hans hefðu verið óeðlileg og óheimil.
Þau hefðu verið síðbúin breyting á lögunum um dóminn, sem féllu ekki að ákvæðum 70. greinar stjórnarskrárinnar um óháða dómstóla, „hvað þá um réttláta málsmeðferð" sagði Andri.
„Ákæruvaldið samþykkir breytingu á lögum um dómstólinn, um að þessir dómendur sem hér sitja en ekki aðrir, skuli dæma í málinu. Má af því skilja að dómendur hér séu sérstaklega valdir af öðrum málsaðilanum til að sitja í dómnum," sagði Andri
Það væri einfaldlega þannig að dómarar sem þannig væru valdir teldust ekki nægilega sjálfstæðir og óhlutdrægir. „Ég held reyndar að slíkt val á dómurum sé einsdæmi hér á landi, og í raun hvort sem er hér eða í öðru landi eða öðrum ríkjum sem teljast til réttarríkja," sagði hann.
Sigríður Friðjónsdóttir, saksóknari Alþingis, krafðist þess á móti að landsdómur tæki frávísunarkröfuna ekki til greina. Sagði hún meðal annars að vísað hefði verið til 6. greinar laga um meðferð sakamála, þar sem segi að dómari sé vanhæfur ef fyrir hendi séu aðstæður eða önnur atvik, til þess fallin að draga óhlutdrægni hans með réttu í efa.
Sagði hún að í ræðu verjandans hefði ekki verið bent á neinar slíkar ástæður og að því leyti bæri strax að frá vísa kröfunni, þótt vitanlega væri það dómsins sjálfs að meta hæfi sitt hverju sinni. Vísaði hún til þess að í fyrsta þinghaldi landsdóms hefði engin krafa um frávísun komið fram á þessum grunni og að skipan dómsins væri óbreytt síðan þá. Sagði Sigríður að þeir dómarar, hverra kjörtímabil hefði verið áréttað út rekstur málsins gegn Geir, hefðu verið kosnir árið 2005 og að núna væru þeir að sjálfsögðu ekkert frekar vanhæfir en þeir voru þann 8. mars, þegar fyrsta þinghaldið var.
Hún áréttaði að reglan sem bætt var inn í landsdómslögin væri meginregla íslensks sakamálaréttarfars, um milliliðalausa málsmeðferð. Meginreglur séu reglur sem ekki sé alltaf talið nauðsynlegt að festa í sett lög frá Alþingi en væru þó taldar gilda, og væru oft á tíðum hreinar skynsemisreglur.
Í þessu tilviki hefði verið talið varlegra að orða þessa meginreglu í settum lögum.