Markmiðið með þeim aðgerðum sem Landsbankinn hefur kynnt til sögunnar til þess að lækka skuldir skilvísra viðskiptavina sinna er einfaldlega að reyna að stuðla að því að þeim fjölgi ekki sem geti ekki staðið í skilum með afborganir.
Þetta kom fram hjá fulltrúum bankans á fundi fjárlaganefndar Alþingis í gærmorgun að sögn Kristjáns Þórs Júlíussonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins sem sæti á í nefndinni.
„Grunnurinn að þessari ákvörðun eins og bankinn lýsir því er lengri og dýpri kreppa og erfiðleikar heimila og fyrirtækja við að halda sér gangandi. Skilafólk er farið að lenda í vanskilum og svo framvegis. Þeir eru í raun, eins og ég myndi orða það, að bregðast við lélegri frammistöðu eigandans [ríkisvaldsins] sem hefur ekki skapað fólki og fyrirtækjum almennilegan grunn til þess að draga fram lífið á,“ segir Kristján í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.