Íslendingar eru ekki lengur með lægstu tíðni skorpulifur á Vesturlöndum, eins og þeir hafa verið áratugum saman. Þetta kemur fram í fyrirlestri, sem Sigurður Ólafsson, meltingar- og lifrarlæknir á Landspítalnum, heldur á ráðstefnu SÁÁ síðar í vikunni.
Á vef SÁÁ er haft eftir Sigurði, að rekja megi þessa aukningu í fyrsta lagi til almennt
aukinnar áfengisneyslu, í öðru lagi til afleiðingar lifrabólgu C sem
aðallega hafi breiðst út meðal sprautufíkla og í þriðja lagi til
aukinnar offitu og sykursýki. Á síðasta ári greindust yfir 40 nýir
sjúklingar með skorpulifur.
Sigurður segir að beint samhengi sé á milli áfengisneyslu og skorpulifrar. Áfengisneysla hafi aukist gríðarlega á undanförnum árum og því hafi verið fyrirséð að skorpulifrartilfellum myndi fjölga.
Haft er eftir Sigurði, að þeir sem greinast með skorpulifur eigi oft góða möguleika á að lifa ágætu lífi sé gætt að góðu lækniseftirliti og í vissum tilvikum sé gefin lyfjameðferð. Skorpulifur geti hins vegar leitt til lifrarbilunar og þá geti lifrarígræðsla verið eina úrræðið.
Ráðstefna SÁÁ um rannsóknir á fíknisjúkdómum og fíknitengdum sjúkdómum sem fram fer í Von á fimmtudaginn.