Útlit er fyrir að flugvirkjar leggi niður vinnu klukkan 6 í fyrramálið eftir að samningafundi var slitið um klukkan fimm í dag. Að sögn Magnúsar Péturssonar, ríkissáttasemjara, sleit hann fundinum vegna þess að hans mat hafi verið að tilgangslaust væri að halda áfram.
„Fundurinn var ekki mjög langur og ég sleit honum því það bar svo mikið á milli aðila. Ég taldi þýðingarlaust að halda áfram.“
Magnús segir jafnframt að nýr fundur hafi ekki enn verið boðaður. „Það fer eftir atvikum hvort við bíðum með nýjan fund til morguns eða fram á kvöld.“
Óskar Einarsson, formaður félags flugvirkja, segir að allt líti út fyrir að verkfall hefjist klukkan 6 í fyrramálið. „Því miður er staðan svona. Það vill enginn fara í verkfall. En það eru ennþá 12 tímar til stefnu og vonandi kemur ekki til þess.“
Á vef Flugvirkjafélags Íslands segir, að flugvirkjar vinni í umhverfi sem sé að taka hröðum breytingum. Ábyrgðarhlutverkið hafi alltaf
verið mikið og menn verið meðvitaðir um það, en nú hafi það verið
markað skýrar með reglugerðum á síðustu árum. Þessar reglugerðir leggi miklar skyldur á
herðar einstaklinganna þótt þeir starfi undir merkjum viðhaldsfyrirtækis.
„Í samræmi við það hafa hæfnis og menntunarkröfur verið auknar verulega,
sem er vel, og eykur gæði þeirrar vinnu sem unnin er, ásamt stöðugri
endurmenntun.
Kjarni málsins er að samningar snúast ekki alltaf bara um prósentur.
Líka um réttindi og skyldur á báða bóga, og framlag hvors um sig metið
á réttum grundvelli," segir síðan.