Aukning í þorski mjög ánægjuleg

Jón Bjarnason.
Jón Bjarnason.

Sjávarútvegsráðherra segir mjög ánægjulegt að sjá þá aukningu á þorsaflamarki, sem aflaregla segir til um. Samkvæmt reglunni, sem gerir ráð fyrir að aflamark verði 20% af veiðistofni, verður þorskkvótinn aukinn um 17 þúsund tonn í 177 þúsund tonn á næsta fiskveiðiári.

„Það er ekkert alvarlegt sé að gerast með neina fiskitegund og virðist vera gott jafnvægi almennt í sjónum. Aukningin í þorski er sérstakt ánægjuefni og það hefur verið stefnt að því á síðustu árum að ná þessari aukningu með því að takmarka sóknina í þorskinn," sagði Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, við mbl.is um nýja skýrslu, sem Hafrannsókna stofnun kynnti í dag um helstu nytjastofna.

„Við höfum séð þorskinn vaxa undanfarin ár og líkur eru á að hann haldi áfram að vaxa," sagði Jón.

Hann sagði, að aðrar tegundir væru á góðu róli en ýsa væri undanskilin. Hins vegar hefði verið vitað  að ýsustofninn væri á niðurleið og því kæmu tillögur Hafrannsóknastofnunar ekki á óvart. Stofnunin leggur til að aflamarkið verði minnkað um 13 þúsund tonn og verði 37 þúsund tonn.

Jón sagði, að leitað yrði álits hagsmunaaðila á tillögum Hafrannsóknastofnunar áður en reglugerð um aflamark verður gefin út fyrir næsta fiskveiðiár en það yrði gert eins fljótt og mögulegt væri.

Hafrannsóknastofnun leggur mikla áherslu á, að ekki verði hvikað frá aflareglunni. Jón sagði, að aflareglu hefði verið fylgt í þorskinum og langeðlilegast væri að henni yrði fylgt áfram.

Skýrsla um ástand nytjastofna

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert