„Í búsáhaldabyltingunni ríkti mikil bjartsýni um að hrunið hefði skapað einstakt tækifæri til að bylta og bæta samfélag sem leiddi yfir okkur eitt stærsta bankahrun sögunnar,“ sagði Lilja Mósesdóttir þingmaður í eldhúsdagsumræðum í kvöld. Hún segir bjartsýni byltingarinnar hafa vikið fyrir bölsýni.
„Mörg okkar báru þá von í brjósti að hrunið myndi færa okkur réttlátara samfélag, meiri jöfnuð og aukið lýðræði. Fólk fengi að njóta sannmælis í stað þess að þurfa að treysta á fjölskylduna, flokkinn og vini um vegsemd og virðingu,“ sagði Lilja og vék að þörfinni fyrir aukinn jöfnuð í samfélaginu.
Bölsýni tekið við af bjartsýni
„Meiri jöfnuður yrði milli þeirra sem af ýmsum ástæðum standa höllum fæti - og hinna sem hafa haft betri forsendur til að ná veraldlegum árangri í lífinu. Lýðræðislegri skoðanaskipti yrðu að veruleika - en forsenda þess er að fólki sé ekki refsað markvisst fyrir að tjá hugmyndir sínar um lausnir og óskir um nýtt samfélag.
Nú eru rúm 2 ár frá Búsáhaldabyltingunni og bölsýni hefur tekið við af bjartsýni hjá mörgum þeirra sem nú berja potta og pönnur fyrir utan þinghúsið. Mörgum finnst endurreisnin hafa falið í sér uppbyggingu þess sem var - en ekki umbyltingu kerfisins og endurnýjun meðal þeirra sem fara með völdin í samfélaginu.
Umbylting sem hefði tryggt að þeir sem standa höllum fæti vegna atvinnumissis, veikinda og eignabruna yrðu ekki helstu fórnarlömb kreppunnar,“ sagði Lilja og fordæmdi efnahagsstefnuna og áhrif Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á hana.
Dýrkeypt mistök í efnahagsstefnunni
„Röng efnahagsstefna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá hruni hefur kostað mörg þúsund manns vinnuna og aleiguna. Efnahagstefna sem fólst í hávaxtastefna, gjaldeyrishöftum og alltof miklum niðurskurði og skattahækkunum.
Hávær krafa hefur verið upp um að eignatilfærslan frá þeim sem skuldsettu sig á röngum tíma - til þeirra sem safnað hafa auði í skjóli innistæðutryggingar og verðtryggingar verði leiðrétt.
Aðgerðir sem gripið hefur verið til breyta litlu fyrir venjulegt fólk sem orðið hefur fyrir eignabruna.
Nú er aftur farið að bera á því að fólk forðist að taka þátt í skoðanaskiptum í fjölmiðlum sem eru oftar en ekki hápólitískir.“
Hvað fór úrskeiðis?
Lilja segir hagsmunabaráttu hafa dregið þrótt úr endurreisninni.
„En hvað fór úrskeiðis eftir hrun? Hvers vegna tókst ekki að umbylta óréttlætinu, ójöfnuðinum og ófrelsinu? Jú, alltof margir eyddu kröftum sínum í eigin hagsmunabaráttu – bæði hér inni á þingi og úti í samfélaginu - í stað þess að berjast fyrir því að spilin yrðu stokkuð og gefið upp á nýtt.
Við Íslendingar erum treg til að skipta þjóðarkökunni upp á nýtt og höldum sem lengst í vonina um að hægt sé að stækka hana eða bjóða upp á nýtt kerfi.
Með því að taka ekki á óréttlátri skiptingu þjóðarkökunnar, lokum við augunum fyrir því að núverandi skipting kökunnar hefur búið til sigurvegara og tapara. Við vonumst til að eignatilfærsla hrunsins lagist með því að bjóða upp á fleiri valkosti við að fjármagna fasteignakaup og með því að opna leið fyrir þá sem hafa selt sig út úr kvótakerfinu inn aftur.
Auður margra á Íslandi er tilkominn vegna þess að þeir voru sigurvegarar í einhverju kerfi.“
Skapi nýja efnahagsstefnu
Lilja vill sjá nýja efnahagsstefnu.
„Afar brýnt er að mótuð verði ný efnahagsstefna sem hefur það að markmiði að skapa atvinnu og velferð. Grípa þarf til aðgerða sem eru atvinnuskapandi og létta byrðar venjulegs fólks. Eftir hrun hefur tekist að lækka skattbyrði þeirra tekjulægstu en skattbyrði annarra hópa og þá sérstaklega millitekjuhópsins hefur verið þyngd verulega.
Vandamál lágtekjuhópsins eru hins vegar tekjutengingar bótakerfisins sem verður að afnema og nota skattkerfið í ríkara mæli til að jafna tekjur milli hópa.
Fjármagna þarf lækkun persónuafsláttar, tryggingagjalds og virðisaukaskatts með því að skattleggja útstreymi fjármagns nú þegar við afléttum gjaldeyrishöftunum og með skatti á tekjuauka útflutningsfyrirtækja vegna of lágs gengis krónunnar. 40% af eignum lífeyrissjóðanna er ógreiddur tekjuskattur. Ávöxtun lífeyrissjóðanna er óviðunandi og því ber að skattleggja iðgjaldagreiðslur.“
Þáttur verðtryggingarinnar
Lilja vék einnig að verðtryggingunni.
„Ríki og sveitarfélög fá þá fjármagn til að efla velferðarþjónustuna, almannatryggingarkerfið og til að byggja sjúkrahús og skóla.
Snúa verður ofan af eignatilfærslunni með afnámi verðtryggingar og upptöku nýs eða annars gjaldmiðils á mismunandi skiptigengi.
Kæru Íslendingar – horfum fram á veginn og berjumst fyrir sameiginlegum hagsmunum þjóðarinnar. Berjumst fyrir réttlátu lýðræðissamfélagim,“ sagði Lilja að lokum.