Fréttaskýring: Íhugað var alvarlega að loka fyrir kortanotkun

Hættan á að lokað hefði verið fyrir greiðslukortanotkun Íslendinga í kjölfar falls bankanna í október 2008 var mun meiri en áður hefur verið greint frá. Alþjóðlegu kortafyrirtækin VISA og Mastercard héldu neyðarfundi um málefni Íslands og var íhugað í fullri alvöru að svipta íslensku fyrirtækin Valitor og Borgun leyfum sínum. Forstjóri Valitors telur að það hefði haft geigvænleg áhrif.

Málið var til umfjöllunar á ráðstefnu CAC (CAC card academy) sem hófst á Hilton Reykjavík Nordica í gær og lýkur í dag. Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitors, fór í erindi sínu meðal annars yfir dagana eftir bankahrunið. Fyrir hrun greiddu Íslendingar fyrir um 70% af daglegri neyslu með kortum en þrátt fyrir það var ekki endilega litið svo á að sú þjónusta skipti sköpum varðandi þjóðaröryggi. En var hættan á algjöru hruni mikil? „Já, mun meiri en fólk heldur,“ segir Viðar sem greindi frá því í erindi sínu að um raunverulega áhættu var að ræða. „Ég veit að bæði kortafyrirtækin, VISA og Mastercard, voru alvarlega að íhuga að loka fyrir kortanotkun á Íslandi.“

Mikilvægt hlutverk Seðlabankans

Viðar hélt því fram í erindi sínu að áfall sem slíkt á þessum tímapunkti hefði haft í för með sér mikla ringulreið og upplausn, auk þess sem varaforði bankanna hefði fljótt klárast og mun verra ástand skapast en þó gerði. Einnig benti hann á að um tólf þúsund Íslendingar voru á erlendri grund þegar á þessu stóð og hefðu án efa lent í miklum vandræðum ef greiðslukortin hefðu hætt að virka.

Að sögn Viðars tókst með samhæfðu átaki að halda þjónustunni gangandi en kortafyrirtækin, þ.e. Valitor og Borgun, funduðu fyrst í Seðlabanka Íslands nokkrum vikum áður en fyrsti bankinn féll, um óvissu á markaði og gerð áætlunar ef bankakerfið hikstaði. „Seðlabankinn lék mikilvægt hlutverk, en ekki síður kortafyrirtækin. Valitor sem er með hátt í 70% af útgefnum kortum á Íslandi spilaði stóra rullu, sem og reiknistofan sem var lykilatriði vegna debetkortanna. Það þurfti því nokkra til.“

Ekki síst voru það þó VISA og Mastercard, enda tóku þau þá ákvörðun að loka ekki. En hvers vegna? „Ég held að það hafi verið vegna þess að það ríkti mikið traust á milli þessara kortasamtaka og íslensku fyrirtækjanna. Og ég held að þau hafi metið stöðuna hárrétt á þessum tímapunkti. Þeim er mjög umhugað um sín vörumerki og þeir mátu það þannig, að það myndi ekki slettast á þau. Og eins kom Seðlabankinn með ákveðna ábyrgð fyrir því að það væri til nægjanlegur gjaldeyrir til að gera upp gagnvart þessum félögum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert