Það er dýrt að standa straum af íþróttaiðkun barna á Íslandi nú til dags. Félagsgjöld kosta sitt og ofan á þau leggjast útgjöld vegna kaupa á fatnaði og öðrum búnaði.
Knattspyrna er sem fyrr ein vinsælasta íþróttagrein landsins og því er ekki úr vegi að bera saman verð á fótboltaskóm hér á landi og á vefsíðunni prodirectsoccer.com, vinsælli vefsíðu sem býður upp á heimsendingar á vörunni til Íslands.
Tökum dæmi. Vefsíðan selur Adidas World Cup fótboltaskó á 14.928 kr. og er heildarverð 23.390 kr. með sendingarkostnaði og álögðum tolli og virðisaukaskatti. Samkvæmt rafrænni kvittun lesanda blaðsins sem blaðamaður fékk senda í pósti er sendingarkostnaður 2.043 kr. á hvert skópar (miðað er við að pundið sé á genginu 186,62 kr. og bandaríkjadalur á 113,73 kr.).
Sé tekið tillit til sendingarkostnaðar er heildarverðið 6.600 kr. lægra en í verslun Útilífs, þar sem útsöluverð er 29.990 kr. og því 28% hærra en í gegnum síðuna.
Þá er munurinn í krónum talið á fótboltaskónum Adidas Predator Absolion FG nú 5.884 kr. á milli sömu útsöluaðila en heildarverðið sé pantað á netinu, með tolli, vsk. og sendingarkostnaði, er 19.106 kr. en 24.990 í Útilífi. Skal tekið fram að verð miðast við uppgefið verð á vefsíðu Útilífs og kunna afslættir og tilfallandi tilboð að lækka verðið.
Verðmunur á Adidas Copa Mundial FG er einnig nokkur. Heildarverð í gegnum vefsíðuna er 23.147 kr. en 29.990 í verslun Útilífs. Munar því 6.843 kr. á skóparinu eða sem nemur 30% af verðinu í gegnum síðuna. Munurinn er enn meiri á skónum Nike Mercurial Victory FG en verðið á þeim á sömu síðu er 9.680 kr. en 17.990 kr. í Útilífi og því 86% hærra.
Opinber gjöld voru reiknuð skv. fyrirmælum frá starfsmanni tollstjórans með reiknivél sem er aðgengileg á netinu. Leiddi samanburður á skópörunum Adidas Supernova Sequence og Adidas Predator Absolato X TRX í ljós að verðið á því fyrrnefnda er 18% hærra á Íslandi (kostar 26.990 kr. í Útilífi) og 65% hærra á því síðarnefnda (kostar 15.990 kr. í Útilífi en 9.680 kr. í gegnum síðuna).
Scarpa Ladakh Gore-Tex gönguskór reyndust hins vegar ódýrari hjá Intersport en í gegnum vefsíðuna rabanser.com en heildarverð í gegnum síðuna var 54.901 kr. og því um 16% hærra en hjá Intersport.
Hins vegar var verð á gönguskónum Salomon Mission Gore-Tex 160% hærra í Intersport en í gegnum vefsíðuna ems.com og er þá ekki tekið tillit til sendingarkostnaðar eða gjalda heldur miðað við að skórnir séu keyptir ytra. Kosta skórnir 11.544 í gegnum síðuna en 29.990 kr. í Intersport.
Vilhjálmur Bjarnason viðskiptafræðingur hefur ritað margar greinar um lífskjör á Íslandi. Hann segir almenning skorta verðskyn.
„Almenningur hefur ekkert verðskyn. Hann lætur bjóða sér hvað sem er. Það er víðáttugalið að það skuli vera verulegur verðmunur á milli landa á einföldustu vörum. Af hverju er verð á hlaupaskóm á tvöföldu dollaragengi á Íslandi? Ég kann ekki svar við því hvers vegna jafn lítið er rætt um verðlag hér og raun ber vitni. Hitt er annað mál að nú blasir þessi munur við. Ef okrið heldur áfram fara neytendur einfaldlega að sniðganga íslenskar verslanir,“ segir Vilhjálmur.