Jóhanna ekki á mælendaskrá

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Kristinn

Athygli vekur að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra er ekki á mælendaskrá í eldhúsdagsumræðunum á Alþingi í kvöld. Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, segir skýringuna liggja í þeirri hefði innan þingflokksins að þingmenn taki sæti á mælendaskrá.

„Við skipum okkar fólk til verka og í þingflokki Samfylkingarinnar hefur það verið hefð á eldhúsdegi að þá tali þingmenn, oftast þingflokksformaður, þó það sé ekki algilt. Það eru þá þingmenn sem gera upp þingstörf eftir veturinn. Stefnuræðan er þá frátekin fyrir forsætisráðherra og aðra ráðherra. Það hefur verið vinnuregla okkar, að hafa þetta lag á hlutunum,“ segir Þórunn.

„Við gerðum þetta svona í fyrra og höldum okkur við það fyrirkomulag,“ segir hún.

Umræðurnar verða sendar út í útvarpi og sjónvarpi. Umræðurnar fara þannig fram að hver þingflokkur fær 22 mínútur til umráða sem skiptast í þrjár umferðir, 10 mínútur í fyrstu umferð, 6 mínútur í annarri og 6 mínútur í síðustu umferð. Þingmaður utan flokka talar síðastur í fyrstu umferð og hefur 6 mínútur.

Röð flokkanna verður þessi í öllum umferðum:

Sjálfstæðisflokkur,
Samfylkingin,
Framsóknarflokkur,
Vinstri hreyfingin – grænt framboð og
Hreyfingin.

Ræðumenn flokkanna verða:

Fyrir Sjálfstæðisflokk tala í fyrstu umferð Bjarni Benediktsson, 2. þm. Suðvesturkjördæmis, í annarri Ólöf Nordal, 2. þm. Reykjavíkurkjördæmis suður, en í þeirri þriðju Tryggvi Þór Herbertsson, 9. þm. Norðausturkjördæmis.

Ræðumenn Samfylkingarinnar eru: Þórunn Sveinbjarnardóttir, 7. þm. Suðvesturkjördæmis, í fyrstu umferð, Helgi Hjörvar, 4. þm. Reykjavíkurkjördæmis norður, í annarri, en í þriðju umferð Jónína Rós Guðmundsdóttir, 10. þm. Norðausturkjördæmis.

Fyrir Framsóknarflokk tala Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, 8. þm. Reykjavíkurkjördæmis norður, í fyrstu umferð, Gunnar Bragi Sveinsson, 4. þm. Norðvesturkjördæmis, í annarri, en í þriðju umferð Eygló Harðardóttir, 7. þm. Suðurkjördæmis.

Fyrir Vinstri hreyfinguna – grænt framboð tala í fyrstu umferð Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra, í annarri Auður Lilja Erlingsdóttir, 2. þm. Reykjavíkurkjördæmis norður, en Álfheiður Ingadóttir, 10. þm. Reykjavíkurkjördæmis norður, í þriðju umferð.

Fyrir Hreyfinguna tala í fyrstu umferð Margrét Tryggvadóttir, 10. þm. Suðurkjördæmis, í annarri umferð talar Þór Saari, 9. þm. Suðvesturkjördæmis, og Birgitta Jónsdóttir, 9. þm. Reykjavíkurkjördæmis suður, í þeirri þriðju.

Ræðumaður utan flokka Lilja Mósesdóttir, 6. þm. Reykjavíkurkjördæmis suður, talar í fyrstu umferð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka