Kreppa í Krýsuvíkurbjargi

00:00
00:00

Krýsu­vík­ur­bjarg er nú ekki svip­ur hjá sjón miðað við það sem menn eiga að venj­ast á þess­um árs­tíma. Fáir svart­fugl­ar sitja á syll­um og enn færri liggja á eggj­um. Þess í stað eru svart­fugla­breiður á sjón­um.

Ástand sjó­fugl­anna veld­ur áhyggj­um, jafnt fugla­áhuga­mönn­um og vís­inda­mönn­um. Dr. Guðmund­ur A. Guðmunds­son, dýra­vist­fræðing­ur hjá Nátt­úru­fræðistofn­un hef­ur starfað með Arnþóri Garðars­syni pró­fess­or við HÍ og fleir­um við vökt­un bjarg­fugla, meðal ann­ars í Krýsu­vík­ur­bjargi.

Guðmund­ur seg­ir að ástandið í Krýsu­vík­ur­bjargi nú sé sýnu verra en áður. Þess varð ekki vart t.d. í fyrra að fugl­arn­ir yrpu ekki. Hann tel­ur lík­legt að fugl­inn sé í svo slæm­um hold­um að hann reyni ekki varp.

Byrjað var að fylgj­ast reglu­lega með Krýsu­vík­ur­bjargi og fleiri fugla­björg­um árið 1985. Fugl­ar í þeim voru tald­ir á varp­tíma á fimm ára fresti. Mik­ill­ar fækk­un­ar tók að gæta upp úr síðustu alda­mót­um og í taln­ing­unni 2005 var fækk­un­in staðfest.

Við fyrstu taln­ingu í Krýsu­vík­ur­bjargi voru þar um 20.000 lang­víu­pör, 8-9 þúsund álkupör og um 3.000 stutt­nefjupör. Stutt­nefj­an er að heita má horf­in og lang­ví­um og álk­um hef­ur fækkað mikið. Ástandið nú í vor er sýnu verst. Mjög fáir fugl­ar hafa orpið og á það bæði við um svart­fugla og rit­ur.

Guðmund­ur sagði í sam­tali við mbl.is að fækk­un sjó­fugl­anna í stóru fugla­björg­un­um hafi komið mikið á óvart. Menn hefðu ef til vill talið að fyrr myndi fækka í minni björg­um og því sem kalla má jaðarbyggðir. Bjarg­fugli hef­ur ekki fækkað síður t.d. í Látra­bjargi en í mörg­um minni björg­um.

Stærsta álku­byggð í heimi er enn í Stór­urð und­ir Látra­bjargi. Álkan hef­ur engu að síður fært sig í stór­um stíl norður fyr­ir land, til dæm­is til Gríms­eyj­ar. Stutt­nefj­um hef­ur fækkað mikið og stofn­inn helm­ing­ast á um 20 árum. Hún er nú nær al­veg horf­in úr Vest­manna­eyj­um og víðar við suður- og vest­ur­strönd­ina. 

Breyt­ing í fæðufram­boði svart­fugl­anna er tal­in lík­leg­asta skýr­ing­in á fækk­un þeirra í fugla­björg­un­um. Sýni­leg breyt­ing varð í kring­um árið 2005 þegar einnig varð vart skorts á sandsíli í sjón­um við suður- og vest­ur­land.

Bjarg­fugl­arn­ir lifa mikið á smá­fisk­um á borð við síli og loðnu.  Fyr­ir norðan land hafa fugl­arn­ir aðgang að loðnu en síla­skort­ur­inn fyr­ir sunn­an hef­ur komið hart niður á mörg­um teg­und­um. Lund­inn í Vest­manna­eyj­um hef­ur til dæm­is ekki komið upp pysj­um nokk­ur sum­ur í röð og krí­an hef­ur ekki held­ur náð að koma upp ung­um sín­um vegna æt­is­skorts. 

Guðmund­ur sagði viðkomu­brest sjó­fugl­anna vera mikið áhyggju­efni. Varp­s­tofn­ar lang­lífra teg­unda á borð við lang­ví­ur og lunda rýrna um 10% á ári ef ekki er nein nýliðun. Nú virðist sem lunda­stofn­inn í Vest­manna­eyj­um, þar sem er stærsta lunda­byggð við Norður-Atlants­hafi, ætli ekki að koma upp ung­um sjö­unda árið í röð. 

Kreppa sjó­fugl­anna und­an­far­in ár veld­ur því að eng­inn geld­fugl er eft­ir, það eru fugl­ar upp að 4-5 ára aldri.  Það er því ljóst að rétti fugla­stofn­arn­ir úr kútn­um tek­ur það nokk­ur ár áður en ástandið verður aft­ur eðli­legt.

Spurður um hvort eitt­hvað væri til ráða svaraði Guðmund­ur því að menn gætu lítið gert, nema að hætta veiðum og eggja­töku til að hlífa stofn­un­um.  Fugl­un­um veiti ekki af öllu sínu þessi árin til að kom­ast af.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka