Krýsuvíkurbjarg er nú ekki svipur hjá sjón miðað við það sem menn eiga að venjast á þessum árstíma. Fáir svartfuglar sitja á syllum og enn færri liggja á eggjum. Þess í stað eru svartfuglabreiður á sjónum.
Ástand sjófuglanna veldur áhyggjum, jafnt fuglaáhugamönnum og vísindamönnum. Dr. Guðmundur A. Guðmundsson, dýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun hefur starfað með Arnþóri Garðarssyni prófessor við HÍ og fleirum við vöktun bjargfugla, meðal annars í Krýsuvíkurbjargi.
Guðmundur segir að ástandið
í Krýsuvíkurbjargi nú sé sýnu verra en áður. Þess varð ekki vart t.d. í fyrra að
fuglarnir yrpu ekki. Hann telur líklegt að fuglinn sé í svo slæmum holdum að hann reyni ekki varp.
Byrjað var að fylgjast reglulega með Krýsuvíkurbjargi og fleiri fuglabjörgum árið 1985. Fuglar í þeim voru taldir á varptíma á fimm ára fresti. Mikillar fækkunar tók að gæta upp úr síðustu aldamótum og í talningunni 2005 var fækkunin staðfest.
Við fyrstu talningu í Krýsuvíkurbjargi voru þar um 20.000 langvíupör, 8-9 þúsund álkupör og um 3.000 stuttnefjupör. Stuttnefjan er að heita má horfin og langvíum og álkum hefur fækkað mikið. Ástandið nú í vor er sýnu verst. Mjög fáir fuglar hafa orpið og á það bæði við um svartfugla og ritur.
Guðmundur sagði í samtali við mbl.is að fækkun sjófuglanna í stóru fuglabjörgunum hafi komið mikið á óvart. Menn hefðu ef til vill talið að fyrr myndi fækka í minni björgum og því sem kalla má jaðarbyggðir. Bjargfugli hefur ekki fækkað síður t.d. í Látrabjargi en í mörgum minni björgum.
Stærsta álkubyggð í heimi er enn í Stórurð undir Látrabjargi. Álkan hefur engu að síður fært sig í stórum stíl norður fyrir land, til dæmis til Grímseyjar. Stuttnefjum hefur fækkað mikið og stofninn helmingast á um 20 árum. Hún er nú nær alveg horfin úr Vestmannaeyjum og víðar við suður- og vesturströndina.
Breyting í fæðuframboði svartfuglanna er talin líklegasta skýringin á fækkun þeirra í fuglabjörgunum. Sýnileg breyting varð í kringum árið 2005 þegar einnig varð vart skorts á sandsíli í sjónum við suður- og vesturland.
Bjargfuglarnir lifa mikið á smáfiskum á borð við síli og loðnu. Fyrir norðan land hafa fuglarnir aðgang að loðnu en sílaskorturinn fyrir sunnan hefur komið hart niður á mörgum tegundum. Lundinn í Vestmannaeyjum hefur til dæmis ekki komið upp pysjum nokkur sumur í röð og krían hefur ekki heldur náð að koma upp ungum sínum vegna ætisskorts.
Guðmundur sagði viðkomubrest sjófuglanna vera mikið áhyggjuefni. Varpstofnar langlífra tegunda á borð við langvíur og lunda rýrna um 10% á ári ef ekki er nein nýliðun. Nú virðist sem lundastofninn í Vestmannaeyjum, þar sem er stærsta lundabyggð við Norður-Atlantshafi, ætli ekki að koma upp ungum sjöunda árið í röð.
Kreppa sjófuglanna undanfarin ár veldur því að enginn geldfugl er eftir, það eru fuglar upp að 4-5 ára aldri. Það er því ljóst að rétti fuglastofnarnir úr kútnum tekur það nokkur ár áður en ástandið verður aftur eðlilegt.
Spurður um hvort eitthvað væri til ráða svaraði Guðmundur því að menn gætu lítið gert, nema að hætta veiðum og eggjatöku til að hlífa stofnunum. Fuglunum veiti ekki af öllu sínu þessi árin til að komast af.