Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í kvöld, að það væri afleitt að í landi sem hefði svo margt að bjóða þyrfti þjóðin að dragnast með ríkisstjórn afturhalds og hafta.
„Ég fullyrði að enginn Íslendingur sættir sig við að búa í landi þar sem allt frumkvæði er drepið niður með athafnaleysi," sagði Bjarni. Hann sagði að ekki væri endalaust hægt að bera fyrir sig kreppu til að afsaka þetta. Lífsspursmál væri að brjótast út úr þessu ástandi og hefja nýja lífskjarasókn.
Ryðja þurfi úr vegi hindrunum fyrir fjárfestingar í orkumálum og skapa ný störf en nú væri atvinnulífið í kyrrstöðu og raunar væri hart sótt að helsta atvinnuveginum, sjávarútveginum. Yfirvofandi lög um sjávarútveg muni kosta þjóðarbúið milljarða króna.
„Ég segi hingað og ekki lengra. Þessi ríkisstjórn verður að víkja," sagði Bjarni.