Smábátasjómenn óhressir

Við smábátahöfnina í Bolungarvík.
Við smábátahöfnina í Bolungarvík. Árni Sæberg

„Við erum mjög óhressir með að það skuli ekki vera meiri afli í þorskinum. Það gengur alltof seint að lyfta honum upp, en miðað við nýtingarstefnu stjórnvalda þá gefur hún ekki meiri afla, það þarf að vera meiri sveigjanleiki í aflareglunni til að taka toppana þegar þeir koma," segir Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssamband smábátasjómanna, um veiðitillögur Hafró.

Örn telur engan vafa á að 200 þúsund tonn af þorski myndu ekki skaða stofninn á nokkurn hátt. Bendir hann á að hrygningarstofninn hafi ekki verið stærri síðan 1964 og viðmiðunarstofninn ekki meiri í rúm 20 ár.

„Síðan urðum við fyrir vonbrigðum með ýsuna. Samt er mikill samhljómur hjá mönnum í flestum tegundum, sem ég hef heyrt frá, hvernig aflabrögðin hafa þróast og hvernig Hafró metur stöðuna - nema í ýsunni. Menn sjá ekki ýsustofninn svona slakann eins og Hafró vill vera að láta," segir Örn og vísar þar til ýsuveiða á grunnslóð. Þar hafi smábátasjómenn ekki átt í neinum vandræðum með að veiða ýsuna og margir flutt til sín kvóta úr stærra kerfinu.

Bendir hann á að í krókaaflamarkinu sé hlutfall ýsu 15% en það sem af er árinu séu smábátasjómenn búnir að veiða um fjórðunginn af allri ýsu sem hefur komið á land. Einnig hafi gengið verr fyrir stærri skipin að ná ýsunni.

Örn segir fátt í tillögunum hafa komið á óvart, nema ef vera skyldi um grásleppuna. Það sé nýtt að Hafró taki svo sterkt til orða um hana. Miðað við fjölda nýttra daga í grásleppunni þá sé veiðin 30% minni á dag.

„Veiðin er eitthvað minni núna en áður en ef farið er nokkra áratugi aftur í tímann þá hafa alltaf verið sveiflur í grásleppunni. Í fyrra var vertíðin mjög góð hjá okkur, vorum að veiða um 70% meira en á meðalvertíð. Veiðin var sérlega góð úti fyrir Vesturlandi en við höfum orðið varir við það á norðausturhorninu að þar hefur veiðin minnkað," segir Örn.

Og ekki má gleyma steinbítnum, segir Örn. Um 90% aflans hjá trillukörlum liggja í þessum þremur tegundum; þorski, ýsu og steinbít. Einnig sé verið að skera verulega niður veiðar á steinbít.

„Það er því mjög erfitt ár framundan ef farið verður að fullu eftir þessum tillögum. Þó að aukningin í þorski sé 17 þúsund tonn þá nægir það alls ekkert til að bæta þetta upp. Ég ætla að vona að ráðherra verði með einhvern sveigjanleika á aflareglunni, þannig að við sjáum hærri tölu en 177 þúsund tonn," segir Örn ennfremur.

Fleiri þorskar deyja bara úr elli

Vísindamenn Hafrannsóknarstofnunar telja að árið 2016 verði hægt að veiða um 250 þúsund tonn af þorski. Spurður út í þetta bendir Örn á að fyrir fáum árum síðan hafi stofnunin verið að tala um veiði upp á 300 þúsund tonn. Viðmiðunarstofninn er 969 þúsund tonn, sem er hæsta tala sem sést hefur í skýrslum Hafró frá árinu 1989.

„Þetta eru aldeilis tíðindi og miðað við þau er verið að leggja til allof litla veiði. Það er verið að veiða minna úr hverjum árgangi og safnast meira upp í eldri árgöngunum. Það bendir til þess að hærra hlutfall deyr bara úr elli," segir Örn Pálsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert