Verk og verkleysi ríkisstjórnar

Þór Saari í eldhúsumræðum í kvöld.
Þór Saari í eldhúsumræðum í kvöld. MBL/Ómar Óskarsson

Þór Saari sagði í eldhúsdagsumræðum í kvöld að þó sum af verkum ríkisstjórnar hafi valdi stórfelldum deilum og kostnaði og mætti þar nefna Icesave málið.

„Önnur mál sem hafa fengið minni athygli en skyldi en koma í beinu framhaldi af Hruninu og skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis eru til dæmis frumvörp ríkisstjórnarinnar um rannsóknarnefndir, upplýsingalög, stjórnarráðið, siðareglur, fullnustu refsinga og breytingar á embætti sérstaks saksóknara.
Sum þessara mála hafa verið samin og framreidd af embættismönnum stjórnarráðsins sem margir hverjir voru sjálfir í ábyrgðarstöðum fyrir Hrunið og höfðu aðkomu að þeirra tíma löggjöf og eftirfylgni hennar“.

Um áætluð þinglok sagði Þór:

 „Það er ekki hægt að bjóða þjóðinni upp á lagasetningu með svona aðferðum og stjórnmálamenn verða að gera sér grein fyrir því að sum mál eru einfaldlega þannig vaxin að þau þurfa langa og ítarlega umræðu.  Grunvallarbreytingar á til dæmis stjórnarráðinu eða auðlindamálum taka langan tíma og eiga að gera það, því hér þarf að vanda vel til verka“.

 Að lokum fjallaði Þór um frumvarpið sem Hreyfingin lagði fram um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu:

„Frumvarp Hreyfingarinnar um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu gengur í megindráttum út á þrennt, sterka byggðatenginu þar sem öllum aflaheimildum er úthlutað aftur til sjávarbyggðanna í samræmi við það sem var áður en framsal aflaheimilda var gefið frjálst.  Jafnræði og arðsemi þar sem allar aflaheimildir þurfa að fara á uppboð og allir landsmenn geta boðið í heimildir.  Sanngirni er svo þriðji meginþátturinn þar sem fjármál sjávarútvegsfyrirtækja eru endurskipulögð og þær skuldir sem til eru komnar vegna kaupa á aflaheimildum eru færðar í sérstakan kvótaskuldasjóð sem verður greiddur niður með sérstöku tímabundnu gjaldi á sölu aflaheimilda“.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert