Flest þeirra fyrirtækja sem voru með góða fjárhagsstöðu árið 2007 voru einnig með góða stöðu árið 2010. Það sama á við um þau fyrirtæki sem voru í slæmri stöðu árið 2007; staða þeirra var einnig slæm árið 2010.
Þetta var meðal þess sem kom fram á morgunverðarfundi Samkeppniseftirlitsins, sem bar yfirskriftina Samkeppnin eftir hrun. Þar var grein frá niðurstöðum rannsóknar á 120 stærri fyrirtækjum á mikilvægum mörkuðum.
Ennfremur var greint frá stöðutöku á afskiptum Samkeppnisyfirlitsins af yfirtöku banka á fyrirtækjum og greint frá því hvernig dregið hefur verið úr samkeppnishindrunum á mikilvægum samkeppnismörkuðum.
Að sögn Páls Gunnar Pálssonar, forstjóra Samkeppniseftirlitsins, er skýrslan hugsuð sem stöðutaka á ýmsum verkefnum sem unnið hefur verið á undanförnum misserum
30% fyrirtækja endurskipulögð
Á fundinum sagði Benedikt Árnason hagfræðingur að 30% fyrirtækja hefðu lokið fjárhagslegri endurskipulagningu. Þau fyrirtæki sem ekki væru skuldsett í erlendri mynt, þyrftu síður á endurskipulagningu að halda.
Í um helmingi fyrirtækjanna, eða 53%, hefur engin breyting á eignarhaldi átt sér stað, mikill breyting á eignhaldi hefur átt sér stað hjá 27% þeirra og lítil breyting hefur orðið hjá 23% þeirra.
„Formlegt eignarhald á fyrirtækjunum hefur breyst mikið frá árinu 2007, þá voru 85% fyrirtækjanna í eigu einstaklinga, en nú eru 48% fyrirtækja í eigu einstaklinga,“ sagði Benedikt. Hann sagði að nú ættu bankar, skilanefndir og lífeyrissjóðir samtals 38% þeirra fyrirtækja sem voru í rannsókninni, en árið 2007 voru 4% fyrirtækja í eigu þeirra.
Segja sér mismunað
Greint var frá sjónarmiðum fyrirtækjanna, en meðal þeirra er að þau telja að bankar vilji halda mikilli skuldsetningu, án þess þó að taka fyrirtækin yfir. Einnig lýstu fyrirtækin yfir óánægju sinni með að skuldir eigenda sumra fyrirtækja hefðu verið lækkaðar, sumum hefði verið gert kleift að halda fyrirtækjum sínum, en öðrum ekki. Fyrirtækin töldu almennt að fjárhagsleg endurskipulagning gengi of hægt.
Einnig kom í ljós mikið vantraust á milli fyrirtækja og í garð banka og stjórnvalda.
Samkeppniseftirlitið hyggst nýta niðurstöðurnar við frekari greiningar á fyrirtækjum, þær munu styðja við eftirlit með bönkum og við að fylgjast með myndun nýrra krosseignatengsla.
Í skýrslunni kemur fram að mikil breyting hefur orðið á eigin fé fyrirtækja. Eigið fé fyrirtækja í sjávarútvegi hefur aukist, en eigið fé annarra atvinnugreina hefur almennt dregist verulega saman, mest hjá fyrirtækjum í bifreiðainnflutningi.
Brot skaða samkeppni
Sonja Bjarnadóttir lögfræðingur sagði að við yfirtöku banka á fyrirtækjum yrði að tryggja að kaupin hefðu ekki áhrif á samkeppnisstöðu.
Ábyrgð á því að farið væri eftir þeim skilyrðum sem Samkeppniseftirlitið setti hvíldi fyrst og fremst á viðkomandi banka. Hún sagði að kannað hefði verið á kerfisbundinn hátt hvort öll skilyrði væru uppfyllt, til þess hefði verið fundað með óháðum eftirlitsaðilum, bankastjórum og eignarhaldsfélögum.
Páll Gunnar Pálsson. forstjóri Samkeppniseftirlitsins, sagði að brot á skilyrðum sköðuðu samkeppni og hægðu á endurreisn atvinnulífsins og efnahagslegum bata fjármálakerfisins. Hann sagði að eftirlitið hvetti atvinnulífið til þess að taka virkan þátt í eftirfylgni með settum skilyrðum tengdum yfirtökum banka á fyrirtækjum
Hann sagði að vegna rangra hvata tæki endurskipulagning atvinnulífsins of langan tíma og á meða óvissa ríkti væru fyrirtæki síður í stakk búin til að taka ákvarðanir.
Óvissa um samkeppnisstöðu
„Endurskipulagning atvinnulífsins tekur of langan tíma og fyrirtæki koma of skuldsett út úr fjárhhagslegri endurskipulagningu,“ sagði Páll. Hann sagði að fyrirtæki teldu almennt að samkeppnisstaða þeirra væri mikilli óvissu háð.
Hann sagði að Samkeppniseftirlitið hyggðist draga upp á yfirborðið tilvik, þar sem bankar færu með yfirráð í fyrirtækjum, án þess að hafa tilkynnt það til eftirlitsins.
„Tryggja þarf að raunveruleg yfirráð banka yfir fyrirtækjum séu uppi á borðum,“ sagði Páll.