Fordæma starfslokasamning

Stjórn og trúnaðarmannaráð Framsýnar fordæma harðlega vinnubrögð meirihluta framkvæmdastjórnar Starfsgreinasambands Íslands við frágang á starfslokasamningi við fyrrverandi framkvæmdastjóra sambandsins.

Þetta kemur fram í ályktun, sem Framsýn hefur sent frá sér. Segir félagið, að þótt ekki hafi fengist umbeðnar upplýsingar um kostnað sambandsins við starfslokasamninginn megi áætla að hann hlaupi á nokkrum milljónum króna.

Á vef sambandsins segir, að  ekki sé ólíklegt að heildarkostnaðurinn sé um 6 milljónir en það hafi þó ekki fengist staðfest. Ljóst sé, að margir séu orðlausir vegna þessa gjörnings

Vísað er í ályktuninni til minnisblaðs frá lögmanni Starfsgreinasambandsins og í skýrslu löggiltra endurskoðenda sem falið var að gera úttekt á bókhaldi sambandsins fyrir árið 2010. Þar komi fram mjög alvarlegar athugasemdir varðandi úttektir af reikningum og kostnaðarfærslur sem ekki sé heimildir fyrir upp á hundruð þúsunda.

Krefst Framsýn-stéttarfélag þess að framkvæmdastjórn Starfsgreinasambandsins afturkalli þegar í stað starfslokasamninginn við framkvæmdastjórann. Þess í stað verði bókhald sambandsins skoðað fjögur ár aftur í tímann. Komi í ljós að frjálslega hafi verið farið með fjármuni sambandsins verði það þegar í stað kært til lögreglu.

„Framsýn áskilur sér rétt til að láta lögmenn félagsins kanna ábyrgð, forsendur og lögmæti þess að meirihluti framkvæmdastjórnar SGS skyldi gera 6 mánaða starfslokasamning við framkvæmdastjóra sambandsins. Það er á sama tíma og til kvaddir endurskoðendur gera alvarlegar athugsemdir við úttektir og færslur framkvæmdastjórans í bókhaldi sambandsins fyrir árið 2010," segir í ályktun félagsins. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert