Gagnrýni hefur gengið of langt

mbl.is/Ómar

Meirihluti sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar Alþingis segir í áliti um hið svonefnda minna sjávarútvegsfrumvarp ríkisstjórnarinnar, að gagnrýni umsagnaraðila á undirbúning frumvarpsins hafi gengið of langt.

Í áliti nefndarmeirihlutans kemur fram, að óhætt sé að segja að, almennt hafi umsagnir og ummæli umsagnaraðila um málið verið nokkuð neikvæðar og óvægnar.

Þannig hafi ítrekað komið fram að umsagnaraðilar teldu frumvarpið óvandað, m.a. þar sem það innihéldi nýjar tillögur sem ekki hefðu fengið mikla umfjöllun í þjóðfélaginu. Þá var gagnrýnt að ekki hefði verið lagt mat á mögulegar afleiðingar tillagnanna áður en frumvarpið var lagt fram og mikið gert úr því að líkur væru á að efnahagslegar afleiðingar þess yrðu alvarlegar og verulegar enda væri með því gengið freklega á þátt hagkvæmni í fiskveiðum.

Þá hafi komið fram að viðmið um samráð við gerð frumvarpa hafi verið virt að vettugi við gerð frumvarpsins, að einstök ákvæði færu gegn markmiðum gildandi fiskveiðistjórnunarlaga, að gengið væri á eignir og atvinnuréttindi útgerðarmanna og meira vald framselt til ráðherra en áður hefði þekkst. Þá hafi verið bent á að ákvæði frumvarpsins væru það matskennd að þau byðu heim hættu á brotum á ýmsum lögmætisreglum.

Að auki hafi umsagnaraðilar marghafnað flestum hugmyndum frumvarpsins, nánast sama hvaða nafni þær nefndust enda gengju þær gegn hagsmunum sem snerta eignarhald á atvinnutækjum sjávarútvegsins og rétt þeirra sem starfa við sjávarútveg til áframhaldandi starfa.

Nefndarmeirihlutinn  segist telja að gagnrýni umsagnaraðila á undirbúning frumvarpsins hafi gengið of langt. Þá hafi gagnrýnendur frumvarpsins hafi gert of mikið úr efnahagslegum áhrifum þess enda virðist afskaplega lítið samhengi á milli þeirra breytinga sem frumvarpið boðar og téðra afleiðinga.

Hvað varði þá gagnrýni að samráð hafi ekki verið viðhaft við undirbúning frumvarpsgerðarinnar er bent á það mikla samráð sem viðhaft var í starfshópi sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipaði til þess að endurskoða lög um fiskveiðistjórnun og skilaði niðurstöðum sínum árið 2010.    

„Í ljósi framangreinds hafnar meiri hlutinn því að undirbúningur frumvarpsins hafi verið ónógur eða lélegur. Væri fullt mark tekið á slíkri gagnrýni mætti með sanni halda því fram að langt gæti verið í að breytingar á stjórnkerfi fiskveiða yrðu að veruleika enda ekki fyrirsjáanlegt að áframhaldandi umfjöllun og undirbúningur muni nokkurn tíma leiða til þess að gagnrýnisraddir þagni og full sátt og samráð nái fram að ganga. Engu síður telur meiri hlutinn að ekki verði hjá því litið að stjórnkerfi fiskveiða er flókið og síbreytilegt. Af þeim sökum kann sveigjanleiki og örar breytingar að einkenna fyrirkomulag þess," segir í álitinu.

Undir það skrifa fulltrúar Samfylkingarinnar og VG í nefndinni, Magnús Orri Schram og Björn Valur Gíslason þó með fyrirvara. 

Nefndarálit meirihluta sjávarútvegsnefndar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka