Jóhanna á gamalli auglýsingamynd?

Auglýsingin frá Icelandair Hotels, sem birtist í dagblöðum í dag.
Auglýsingin frá Icelandair Hotels, sem birtist í dagblöðum í dag.

Stór auglýsing frá Icelandair Hotels í dagblöðum í dag hefur vakið talsverða athygli en í auglýsingunni er stór mynd úr anddyri Hótels Loftleiða á sjöunda áratug síðustu aldar. Hafa lesendur Morgunblaðsins talið sig þekkja Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, á myndinni.

Myndin er úr myndasafni Icelandair en hún var tekin árið 1966, sama ár og Hótel Loftleiðir var opnað.  Aðspurð um myndina segir Hildur Ómarsdóttir, markaðsstjóri Icelandair Hotels, að bæði starfsfólk hótelsins og flugfreyjur hafi setið fyrir á myndinni. Hins vegar hafi hún ekki upplýsingar um hverjar fyrirsæturnar voru.

„Þetta var skemmtilegt verkefni, sá sem stýrði því var Sigurður Magnússon ásamt Helgu Ingólfsdóttur. Enginn fékk greitt aukalega fyrir myndatökurnar en allir tóku með glöðu geði þátt,“ segir Hildur.

Árið 1966 var Jóhanna Sigurðardóttir formaður Flugfreyjufélags Íslands. Mbl.is hefur ekki náð að bera það undir Jóhönnu hvort hún hafi setið fyrir á þessum myndum en lesendur geta velt því fyrir sér. 

Auglýsingin var birt í dag í tilefni af því, að lokið er miklum endurbótum á hótelinu, sem jafnframt fær nýtt nafn og heitir nú Reykjavik Natura. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert