Hæstiréttur staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Landsbankans gegn þrotabúi Mótormax. Snérist deilan um lán, sem Landsbankinn taldi að fæli í sér skuldbindingu í erlendri mynt en Hæstiréttur taldi að lánið væri í íslenskum krónum en gengistryggt og þar með ólöglegt.
Landsbankinn sagði í febrúar, þegar dómur héraðsdóms féll, að ef öll erlend lán af þessum toga yrðu talin ólögmæt, yrðu neikvæð áhrif á eignastöðu bankans að hámarki um 16 milljarðar króna.
Sjö hæstaréttardómarar dæmdu í málinu og klofnaði dómurinn. Fjórir dómarar, Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen, og Viðar Már Matthíasson vildu staðfesta héraðsdóm. Þrír dómarar, Garðar Gíslason, Jón Steinar Gunnlaugsson og Markús Sigurbjörnsson, töldu að um væri að ræða lán í erlendri mynt. Því félli það ekki undir heimildir til verðtryggingar lánsfjár í íslenskum krónum og væri því löglegt.