Aðalmeðferð í máli Sólheima í Grímsnesi gegn íslenska ríkinu lauk í hádeginu í dag. Málið snýr að ákvörðun Alþingis um að skerða fjárveitingar til Sólheima um 4% í fjárlögum ársins 2009. Lögmaður Sólheima segir niðurskurðinn brot á jafnræðisreglu en lögmaður ríkisins að málefnalegar ástæður hafi staðið að baki.
Þjónustusamningur var gerður við Sólheima árið 2004 þar sem hver íbúi var metinn og fjárframlag ákvarðað út frá þeirri þjónustu sem hver og einn þurfti. Þá voru fjörutíu íbúar á Sólheimum. Gerður var viðauki við samninginn í mars 2008 þar sem tilgreint var hvaða þjónustu veita skyldi og hvaða endurgjald kæmi fyrir það og gilti sá til 31. desember 2010.
Hins vegar var það við fjárlagagerðina 2009 að fjárframlög til stofnunarinnar voru skert. Til þingsins kom fram tillaga um óbreytt fjárframlög en í nefndarstarfi þingsins var ákveðið að skera fjárveitingarnar niður um 4% eða 11 milljónir króna. Þar þótti forstöðumönnum Sólheima verið brotið á stofnuninni og íbúum Sólheima þar sem áður hafði verið gefið út að hlífa ætti málefnum fatlaðra við niðurskurði sem kostur væri. Þá hafi enginn niðurskurður verið hjá annarri stofnun sem sinnir sambærilegri þjónustu.
Framkvæmdastjóri Sólheima, Guðmundur Ármann Pétursson, kom fyrir dóminn í morgun og sagði afleiðingar þessa niðurskurðar mjög slæmar fyrir stofnunina. Ekki hafi verið hægt að ráða í þau störf sem losna og gengið hafi á almenna þjónustu. Þá benti hann á að fjárveitingin hafi verið einstaklingsbundin og því hafi verið skorið niður hjá hverjum og einum íbúa Sólheima. Það væri niðurskurður sem sami íbúi hefði ekki þurft að þola ef hann nyti þjónustu annars staðar á landinu. „Þetta var niðurskurður á við um tvo einstaklinga. En hvað áttum við að gera, vísa tveimur á brott?“
Rekstur Sólheima sem nær ávallt gekk vel hefur tekið stakkaskiptum í kjölfar niðurskurðarins. Guðmundur sagði að eftir að rekstrarhagnaður hafði fengist á árunum fyrir skertar fjárveitingar hafi afkoman verið neikvæð fyrir árið 2009 og 2010. Spurður út horfur í rekstrinum á þessu ári sagði Guðmundur þær slæmar. Búist sé við áframhaldandi taprekstri og hann sé að aukast.
Lögmaður Sólheima, Karl Axelsson, sagði skýringu þingsins fyrir skerðingunni þá að tekið hefði verið af framlögum ríkisins í sérstakan varasjóð Sólheima. Það sé hins vegar misskilningur hjá þinginu. Vissulega hafi verið ákvæði um varasjóð í þjónustusamningnum en um hafi verið að ræða heimildarákvæði um að ef hagnaður væri á rekstrinum mætti færa allt að 4% af framlagi ríkisins í sjóðinn. Þar hafi því aðeins verið um heimild að ræða til flytja rekstrarafgang milli ára. Auk þessa hafi varasjóðurinn verið tómur þegar þingið tók ákvörðun sína, sökum þess að úr honum þurfti að ráðstafa fé á móti vísitöluhækkunum á byggingakostnaði vegna framkvæmda við þjónustumiðstöð.
Karl sagði að með ákvörðun sinni hefði Alþingi tekið íbúa Sólheima út fyrir sviga og lækkað til þeirra framlög. Því sé um klárt brot á jafnræðisreglu að ræða. Sólheimar voru eina stofnunin sem þurfti að þola skerðingu af þessu tagi. Þá væru skýringar þingsins rýrar þar sem enda hafi fá ár Sólheima verið svo gjöful að hægt var að færa afgang í varasjóðinn.
Einnig benti hann á aðrar stofnanir á borð við Skaftholt í Skeiða og Gnúpverjahreppi og Skálatún í Mosfellsbæ. „Bullandi hagnaður“ hafi verið hjá Skaftholti og hlutfallslega meiri en hjá Sólheimum en ekki hafi verið skorið niður þar. Og Skálatún hafi átt hundruð milljóna í verðbréfaeign en ekki hafi verið skorið niður þar. „Það eru því einhverjar aðrar ástæður sem liggja að baki þessarar ákvörðunar en þær sem tilgreindar eru,“ sagði Karl og að skýringarnar væru ekki trúverðugar.
Að lokum spurði Karl hvort það væri málefnaleg nálgun að refsa Sólheimum fyrir ráðdeild í rekstri ef það væri raunin að skorið hafi verið niður vegna þess að reksturinn gekk vel, og hvers vegna hafi þá ekki verið skorið niður hjá Skaftholti sem var með meiri hagnað. Málið snúi ekki að neinum smáaurum í aðkrepptum og erfiðum rekstri því niðurskurðurinn hafi haldið sér næstu ár á eftir og nemi í dag 33 milljónum króna.
Lögmaður íslenska ríkisins, Einar K. Hallvarðsson, sagðist ekki þekkja dæmi þess að dómstólar endurskoði fjárlög Alþingis. Samkvæmt stjórnarskrá samþykki Alþingi fjárlög og sé það vald varið í stjórnarskrá. Óheimilt sé samkvæmt stjórnarskrá að verða við dómkröfum Sólheima í málinu. „Málið er ekki flóknara,“ sagði Einar.
Auk þessa sagði Einar að í skjölum við fjárlagagerðina komi fram allar ástæðurnar fyrir skerðingunni. Þar beri hæst efnahagshrunið haustið 2008. Þó það hafi verið sársaukafullt þurfti að skera niður. Rekstur Sólheima hafi borið þess merki að hann gæti brúað skerðingu sem nam umræddum fjórum prósentum. Hann benti á að um þrjátíu milljónum hafi verið ráðstafað í varasjóðinn á árunum 2005-2008 og því hafi Sólheimar haft borð fyrir báru. Breyti þá engu að varasjóðurinn hafi verið tómur í árslok 2008. „Það var reynslan að Sólheimar gátu ráðstafað í hann. Og það var þeim ekki skylt heldur heimilt.“
Einar sagði enga mismunum að finna og efni fjárlaga sé byggt á valdi löggjafans. Löggjafinn ákveður hverju sinni hversu mikið fer af kökunni til hvers og eins. Auk þess hafi ríkið staðið fyrir því á ögurtímum að breyta velferðarkerfinu vegna þess að efnahagshrun hafi orðið. „Hvað er eðlilegra en að horfa í rekstrarreikning hverrar stofnunnar fyrir sig. Þarna var svigrúm og ekkert bendir til annars en að þessi skerðing hafi staðist án þess að skerðing hafi orðið á réttindum fatlaðra,“ sagði Einar og benti á að það hljóti að hafa verið betri leið en að beita grimmum flötum niðurskurði.
Jafnframt sagði Einar, að þegar litið er til rekstrarniðurstöðu Sólheima þá hefði verið hagnaður bæði árin 2009 og 2010.
Þetta misræmi má rekja til þess að lögmaður Sólheima tók aðeins afkomu þjónustuhluta Sólheima en lögmaður ríkisins tók niðurstöðu samstæðureiknings, þar sem inn í fléttast þau fyrirtæki sem starfa á Sólheimum, s.s. hitaveita, gistiheimili og skógrækt. Framkvæmdastjóri Sólheima sagði ekki eðlilegt að taka þá samtölu vegna þess að það sé ekki fjármagn sem eigi að fara í rekstur þjónustuhlutans. Fyrirtæki þar fái meðal annars styrki frá umhverfisráðuneytinu og þar væri varla ánægja með, að það fjármagn rynni í þjónustu við fatlaða. Einar sagði þetta hins vegar allt saman Sólheima og það yrði að taka með í reikninginn.
Framkvæmdastjóri Sólheima fór einnig aðeins yfir stöðuna eins og hún er í dag. Fjárveitingar koma frá sveitarfélaginu Árborg eftir færslu málaflokksins til sveitarfélaga en greiðslur eru ákvarðaðar eftir þjónustusamningnum sem gerður var 2004. Þjónustumatið hefur ekki breyst og því séu Sólheimar að fá greiðslur fyrir íbúa sem eru látnir, en ekki fyrir nýja íbúa sem inn koma. „Það er ekkert samhengi á milli þeirrar þjónustu sem við höfum verið að veita og þeirrar greiðslu sem Sólheimar fá,“ sagði Guðmundur.
Þá sagði Guðmundur að viðræður standi enn yfir við Árborg og muni halda áfram næstu vikur. Hins vegar er verið að vinna að nýju mati á fötluðum og gert ráð fyrir að það taki gildi næstu áramót. Guðmundur sagði að það muni verða mikil breyting og koma af fullum þunga á sveitarfélögin.