Mikil vinna við endurútreikning

Landsbankinn segir, að mikil vinna sé framundan við endurútreikning lána sem falla undir dóm Hæstaréttar í svonefndu Mótormax-máli í dag og megi búast við að sú vinna taki talsverðan tíma.

Um er að ræða mál, sem Landsbankinn höfðaði gegn þrotabúi Mótormax ehf. vegna láns, sem Mótormax tók hjá gamla Landsbankanum.

Meirihluti Hæstaréttar féllst á þá röksemd þrotabúsins að lánið væri ekki í erlendri mynt heldur í íslenskum krónum með ólögmætri gengistryggingu við erlenda mynt.

Sérstök gjaldfærsla, sem nam 18,1 milljarði króna, var í reikningnum bankans fyrir síðasta ár til að mæta áhrifum dóma sem féllu á árinu 2010 og snemma árs 2011, þar á meðal Mótormaxdómsins. Segir Landsbankinn að dómurinn muni því ekki hafa frekari áhrif á fjárhagsstöðu bankans. 

Fram hefur komið, að ef öll erlend lán af þessum toga yrðu talin ólögmæt, yrðu neikvæð áhrif á eignastöðu bankans að hámarki um 16 milljarðar króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka