Samstarf milli glæpahópa

Lögreglan á Íslandi á í höggi við harðsvíraða glæpamenn, og …
Lögreglan á Íslandi á í höggi við harðsvíraða glæpamenn, og hafa íslenskir og erlendir glæpahópar tekið höndum saman í einhverjum tilvika. mbl.is/Júlíus

Flæði milli innlendra og erlendra glæpahópa hér á landi er mikið og virðast afbrotamenn starfa saman þegar tækifæri til að hagnast gefst. Þetta segir Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra í skriflegu svari við fyrirspurn formanns Framsóknarflokksins. Einnig segir að hlutfall erlendra ríkisborgara af heildarfjölda kærðra hafi aukist.

Í svari ráðherra segir að það sé mat greiningardeildar ríkislögreglustjóra að skipulögð glæpastarfsemi hafi færst í vöxt á Íslandi og eru þar á ferðinni bæði innlendir og erlendir glæpahópar. Hlutfall erlendra ríkisborgara af heildarfjölda kærðra einstaklinga hafi aukist sem sé í takti við þá þróun sem hefur orðið á starfsemi skipulagðra glæpasamtaka á Íslandi.

Á höfuðborgarsvæðinu voru einstaklingar með erlent ríkisfang um 5% kærðra fyrir innbrot árið 2005. Árið 2007 var sambærilegt hlutfall tæplega 12% og tæplega 17% árið 2009. Árið 2010 lækkaði þetta hlutfall og var 11% samkvæmt bráðabirgðatölum.

Innbrotum hefur hefur fjölgað á síðustu árum og voru þau um sex hundruð fyrstu fjóra mánuði ársins, sem gerir fimm innbrot að meðaltali á hverjum degi. Taka ber fram að um bráðabirgðatölur er að ræða. Á síðasta ári var tilkynnt um 2.866 innbrot, samkvæmt bráðabirgðatölum, en árið 2009 var tilkynnt um 3.524 innbrot.

Til viðmiðunar eru tekin árin 1999 og 2000 en þá voru framin 2.556 og 2.407 innbrot.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert