„Þetta yrði mjög eindregið skattlagning á starfsfólk í sjávarútvegi,“ segir Einar K. Guðfinsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, varðandi hugmyndir stjórnarliða um að leggja á bilinu 60-80% skatt á einstaklinga sem séu með yfir eina milljón kr. í laun á mánuði.
Einar lagði nýverið fram fyrirspurn til fjármálaráðherra um skiptingu mánaðarlauna eftir atvinnugreinum.
Í svari ráðherra kemur fram að rúmlega 51.000 greiðslur séu í staðgreiðsluskrám ríkisskattstjóra sem hafi veirð hærri en ein milljón kr. árið 2010, eða um 4.300 að meðaltali í hverjum mánuði. Þar af 1.560 starfsmenn í fiskveiðum og fiskvinnslu.
Einar segir í samtali við mbl.is að um 36% þeirra sem séu með yfir milljón á mánuði séu starfsmenn í sjávarútvegi.
Einar segir ennfremur að tildrög þess að hann hafi lagt fram fyrirspurnina sé sú að fyrir um tveimur til þremur mánuðum síðan hafi verið uppi mjög háværar umræður, bæði í samfélaginu og á meðal stjórnarliða á Alþingi, um að það ætti að leggja á bilinu 60-80% skatt á einstaklinga sem væru með yfir eina milljón kr. í mánaðarlaun.
Að sögn Einars var tilefni þess að slík umræða fór af stað fréttir af ofurlaunum fáeinna bankastarfsmanna.
„Þess vegna fannst mér nauðsynlegt að reyna að draga fram hverjir myndu lenda í þessari skattlagningu ef að henni yrði hrint í framkvæmd,“ segir Einar.
„Ef við tökum bara fjármála- og vátryggingarstarfsemi, sem er líka í þessum flokki, þá er það ekki nema um 13% þeirra sem þarna er um að ræða. Þannig að þessar hugmyndir um ofsaskattlagningu á þá sem væru með meira en milljón á mánuði yrði þá meira og minna skattlagning á starfsfólk í sjávarútvegi,“ segir Einar.
Hann bendir á að laun sjómanna ráðist af fiskverði. Það ráðist m.a. af gengi krónunnar, sem standi núna í sögulegu lágmarki. Gengið valdi því að laun sjómanna séu tiltölulega há um þessar mundir. Hins vegar eigi þau til að sveiflast mjög mikið á milli ára.
„Hér væri um að ræða skattlagningu sem kæmi mjög hart niður á mörgum sjómönnum,“ segir Einar.
Tölurnar ríkisskattstjóra sýni fram á fáránleika þessara hugmynda og það hversu illa þær hafi verið úthugsaðar.