Nú greinast 1.387 Íslendingar með krabbamein á hverju ári, sex af hverjum tíu sem greinast geta vænst þess að lifa í fimm ár eða lengur.
Þetta kom fram í svari Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra við fyrirspurn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar alþingismanns á Alþingi í dag.
Að meðaltali greindust 724 karlar með krabbamein á ári á árabilinu 2005-2009. Flestir greindust með krabbamein í blöðruhálskirtli, eða 220, 78 greindust með lungnakrabbamein, 74 með ristil- og endaþarmskrabbamein, 53 með krabbamein í þvagvegum og um 35 með húðkrabbamein, önnur en sortuæxli, svo helstu tegundir séu taldar, samkvæmt svari ráðherrans.
Þá greindust 663 konur með krabbamein að meðaltali á ári á árunum 2005-2009. Hjá konum er brjóstakrabbamein algengast, 195 greinast með það, 74 greinast með lungnakrabbamein, 62 með ristil- og endaþarmskrabbamein, 31 með húðkrabbamein, önnur en sortuæxli, og 30 með sortuæxli í húð.
Samanburður tuttugu ár aftur í tímann sýnir að dauðsföllum úr krabbameini hefur fjölgað um 32%. Það skýrist að hluta af fjölgun þjóðarinnar og breyttri aldurssamsetningu. Velferðarráðherra sagði að að teknu tilliti til slíkra þátta hafi svonefnd dánartíðni úr krabbameini lækkað um 16% á þessu tímabili og er það einkum þakkað fyrri greiningu og bættri meðferð.
Svar velferðarráðherra við fyrirspurn um krabbamein