Eldsneytisverð lækkar um 10 krónur lítrinn í dag hjá Atlantsolíu, ÓB, Orkunni og Shell. Lækkunin gildir fyrir þá sem eru handhafar dælulykla eða ákveðinna afsláttarkorta.
„Við veitum 10 króna afslátt með okkar dælulykli í dag en afslátturinn er gefinn til miðnættis,“ segir Hugi Hreiðarsson markaðsstjóri Atlantsolíu en afslátturinn á við um bæði bensín- og dísilolíu. Lækkunin miðast við núverandi verð Atlantsolíu á bensíni, 232,10 krónur og núverandi verð á dísilolíu, 230,90 krónur.
„Það má orða það svo að grunnurinn að þessu sé fyrsta ferðahelgi sumarsins,“ segir Hugi um ástæðu lækkunarinnar en hann býst við því að mikið verði að gera á mannlausu bensínstöðvunum í dag.
ÓB veitir 10 króna afslátt af lítraverði í dag fyrir handhafa ÓB-lykla og ÓB-Frelsis. Orkan og Shell veita 10 króna afslátt á lítrann í dag í tilefni afmælis Orkuverndar. Afslátturinn gildir þegar greitt er með Orkulykli, Orkukorti, Afsláttarkorti, Orkufrelsi eða Staðgreiðslukorti Skeljungs.