Þegar Reykvíkingar vöknuðu í morgun blasti við þeim alhvít Esjan. Víða snjóaði í á Norðausturlandi í gær og var raunar alhvít jörð víða í Þingeyjarsýslum.
Útlit er þó fyrir að heldur fari að hlýna úr þessu. Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur, segir á vef sínum, að mestu ótíðinni sé að ljúka en varla hlýni meira en svo að verði nærri meðallagi árstímans og kannski tæplega það.
Trausti Jónsson, veðurfræðingur, segir á sínum vef, að sé miðað við upphaf júnímánaðar er kuldinn undanfarið svipaður og búast megi við á um það bil 10 ára fresti. Ámóta kuldaköst hafi komið á þessum tíma bæði 2001 og 1997.
Kastið 1997 hafi veirð snarpara, sérstaklega vegna þess að á undan því fóru nokkrir mjög hlýir dagar með hita vel yfir 20 stigum norðanlands. Þá stóðu smáþjóðaleikar yfir í Reykjavík og mátti sjá hvít korn fjúka um Laugardagsvöllinn meðan á keppni stóð. Þá gerði alhvítt á láglendi í kringum Selfoss.