Viðbragðshópur á vegum velferðarráðherra hefur skilað honum tillögum um aðgerðir til að sporna við misnotkun metýlfenidat-lyfja og annarra lyfseðilsskyldra lyfja. Ráðherra hefur fallist á tillögur hópsins og verður þegar hafist handa við að hrinda þeim í framkvæmd.
Fram kemur á vef ráðuneytisins, að tillögurnar felist einkum í eftirfarandi:
- Hefta aðgengi fýkla að metýlfenidat-lyfjum meðal annars með því að ávísa
fremur á lyf sem minni hætta er á að séu misnotuð vegna meðferðar við ADHD.
- Eftirlit landlæknis verði eflt og kannaðir möguleikar á rýmri lagaheimildum
fyrir samkeyrslu upplýsinga úr gagnagrunnum í því skyni.
- Ávísanir á metýlfenidat-lyf og önnur ávana- og fíknilyf verði aðeins
afgreiddar út á lyfjaskírteini.
- Meðferðarúrræði fyrir ungmenni í fíkniefnavanda og eftirfylgd með þeim verði
aukin.
- Úrræði fyrir fíkla sem eru
nýgreindir með HIV-smit og lifrabólgu C verði efld.
- Víðtækt samstarf verði haft um að efla forvarnir, félagslegan stuðning og
baráttu við ávana- og fíkniefnavanda samfélagsins.
- Ráðist verði í opinbera stefnumörkun í ávana- og
fíkniefna(lyfja)málum.
Lögð er áhersla á, að þótt tillögunum sé ætlað að stemma stigu við misnotkun
umræddra lyfja sé markmiðið sömuleiðis að tryggja að börn,
unglingar og fullorðnir sem þurfa á þessum lyfjum að halda, meðal annars við
ofvirkni og athyglisbresti, fái þau áfram ásamt nauðsynlegum
stuðningi.