Róbert Spanó, formaður Rannsóknarnefndar kirkjuþings, segir aðspurður ljóst að Þjóðkirkjan hafi brugðist í tengslum við ásakanir á hendur Ólafi Skúlasyni, biskupi, um kynferðisbrot. Þá fyrst og fremst gagnvart þeim einstaklingum sem sökuðu Ólaf um brot gegn sér.
„Kirkjan hefur að okkar mati brugðist við meðferð þessa máls með því að taka ekki við þessum einstaklingum og fjalla um mál þeirra af sanngirni og virðingu og með faglegum og vönduðum hætti,“ segir Róbert. Skort hafi á að kirkjan fylgdi þessum málum eftir með þeim hætti í samræmi við þau gildi og grundvallarhugsjónir sem hún standi frammi fyrir.
Þá væri ljóst að gerð hafi verið mistök í meðferð málsins á ýmsum stigum þess. Hins vegar megi ekki horfa framhjá því að Þjóðkirkjan hafi sýnt viðleitni „til þess að laga og betrumbæta hlutina.“ Sagðist Róbert vona að með gerð skýrslu nefndarinnar gæti kirkjan gert enn betur í þeim efnum.
Aðspurður vildi Róbert ekki tala um brot einstakra einstaklinga í tengslum við málið og lagði áherslu á að nefndinni hefði hvorki verið falið að rannsaka viðbrögð Ólafs Skúlasonar í málinu né hafi hlutverk hennar verið að fella dóm í því heldur einungis að leggja mat á það hvort kirkjunnar þjónar hefðu gerst sekir um vanrækslu, mistök eða þöggun eins og fram komi í skýrslunni.