Órofa samstaða um málsvörn

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Golli

Árni Páll Árna­son, efna­hags- og viðskiptaráðherra, sagði á Alþingi í dag, að í fyrsta skipti í sögu Ices­a­ve-máls­ins hefði náðst órofa samstaða allra flokka á Alþingi um málsvörn Íslands í mál­inu en ljóst sé að framund­an kunni að vera mála­rekst­ur um Ices­a­ve-málið fyr­ir dómi.

„Mik­il­vægi þess verður ekki of­metið. Sú samstaða  er for­senda raunsæs stöðumats. Eng­inn get­ur full­yrt um úr­slit dóms­máls en Ísland hef­ur mik­il­væg­an málstað að verja," sagði hann. 

Sér­stök umræða var á Alþingi nú síðdeg­is um þá niður­stöðu Eft­ir­lits­stofn­un­ar EFTA (ESA) í dag að ís­lenska rík­inu beri að greiða bresk­um og hol­lensk­um inni­stæðueig­end­um á Ices­a­ve-reikn­ing­um lög­bundna inni­stæðutrygg­ingu, sam­tals um 650 millj­arða króna, inn­an þriggja mánaða. Að öðrum kosti verði mál­inu vísað til EFTA-dóm­stóls­ins.

Árni Páll fór yfir málið, og sagði laga­leg­an ágrein­ing um það. Afstaða Íslands væri sú, að ekki væri rík­is­ábyrgð á inni­stæðuskuld­bind­ing­un­um og ekk­ert hefði komið fram í rök­studdu áliti ESA sem breytti þeirri af­stöðu. Þvert á móti mætti ef­ast um, að rík­is­ábyrgð á skuld­bind­ing­um inni­stæðutrygg­ing­ar­sjóða stand­ist al­menn sjón­ar­mið Evr­ópu­rétt­ar og slík rík­is­ábyrgð gæti ógnað fjár­mála­stöðug­leika  í ýms­um Evr­ópu­sam­bands­ríkj­um. 

Þá kysi ESA að líta fram hjá því, að inni­stæðueig­end­ur Ices­a­ve hefðu þegar fengið fé sitt greitt úr bresk­um og hol­lensk­um sjóðum. Með frétt­um af bætt­um heimt­um úr búi Lands­bank­ans væri ljóst, að all­ur þorri krafna allra inni­stæðueig­enda og trygg­inga­sjóða í Bretlandi og Hollandi feng­ist greidd­ur. 

Bjarni Bene­dikts­son, formaður Sjálf­stæðis­flokks, sagði að því yrði ekki haldið fram, miðað við sögu máls­ins, að niðurstaða ESA komi á óvart. Niðurstaðan væri hins veg­ar al­var­legt mál. 

Sagðist Bjarni geta tekið und­ir það með Árna Páli, að Íslend­ing­ar teldu sig hafa sterk­an málstað að verja.  Þá væri það um­hugs­un­ar­efni, að ESA skuli halda áfram með málið und­ir for­ustu for­seta, sem hefði greini­lega á fyrri stig­um máls­ins tekið af­stöðu áður en fyrstu viðbrögð Íslend­inga voru sett fram með form­leg­um hætti. Fullt til­efni hefði verið að gera at­huga­semd­ir við að for­set­inn viki ekki sæti við af­greiðsluna.

Nú væri það verk­efni Íslend­inga að taka til varna. Það væri vilji ís­lensku þjóðar­inn­ar, sem hefði birst í þjóðar­at­kvæðagreiðslunni um Ices­a­ve-lög­in í apríl. 

Árni Þór Sig­urðsson, formaður ut­an­rík­is­mála­nefnd­ar, sagði að á fundi nefnd­ar­inn­ar í dag hefði verið góður sam­hljóm­ur um að þing­heim­ur standi sam­an um hvert skref sem tekið verður í fram­hald­inu. Einnig væri mik­il­vægt að vanda viðbrögð og taka tíma til að íhuga þau.

Einnig hefði komið fram ósk um að svör ESA yrðu greind mjög ná­kvæm­lega og þau bor­in sam­an við svör sem ís­lensk stjórn­völd sendu stofn­un­inni fyrr á þessu ári.

Sig­mund­ur Davíð Gunn­laugs­son, formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins, sagði að í yf­ir­lýs­ingu ESA birt­ust efti­r­á­skýr­ing­ar, m.a. að þær að Íslend­ing­ar hafi verið skuld­bundn­ir til að kom­ast að ein­hverri niður­stöðu.

Margt skondið væri í niður­stöðu ESA, m.a. þegar því væri haldið fram að Íslend­ing­ar hefðu í raun brotið af sér með því að menn hefðu ekki getað tekið pen­ing­ana sína út úr Ices­a­ve-bank­an­um en í öll­um öðrum Evr­ópu­ríkj­um hefðu menn getað tekið pen­inga út úr bank­an­um í miðri fjár­málakrísu. Ekki væri talið gilt, að ómögu­legt hafi verið að halda bank­an­um opn­um vegna þess að ári síðar hefðu menn haft fjár­magn til að greiða inni­stæðurn­ar út.

Mar­grét Tryggva­dótt­ir, þingmaður Hreyf­ing­ar­inn­ar, sagðist sam­mála þeirri túlk­un Árna Páls um að gíf­ur­lega mik­il­vægt væri að halda sam­stöðunni, sem myndaðist þegar upp­haf­legu er­indi ESA var svarað. „Nú þurf­um við öll að standa sam­an og standa í lapp­irn­ar og klára þetta mál. Ég er viss um að við klár­um það með sóma," sagði Mar­grét.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert