Órofa samstaða um málsvörn

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Golli

Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, sagði á Alþingi í dag, að í fyrsta skipti í sögu Icesave-málsins hefði náðst órofa samstaða allra flokka á Alþingi um málsvörn Íslands í málinu en ljóst sé að framundan kunni að vera málarekstur um Icesave-málið fyrir dómi.

„Mikilvægi þess verður ekki ofmetið. Sú samstaða  er forsenda raunsæs stöðumats. Enginn getur fullyrt um úrslit dómsmáls en Ísland hefur mikilvægan málstað að verja," sagði hann. 

Sérstök umræða var á Alþingi nú síðdegis um þá niðurstöðu Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) í dag að íslenska ríkinu beri að greiða breskum og hollenskum innistæðueigendum á Icesave-reikningum lögbundna innistæðutryggingu, samtals um 650 milljarða króna, innan þriggja mánaða. Að öðrum kosti verði málinu vísað til EFTA-dómstólsins.

Árni Páll fór yfir málið, og sagði lagalegan ágreining um það. Afstaða Íslands væri sú, að ekki væri ríkisábyrgð á innistæðuskuldbindingunum og ekkert hefði komið fram í rökstuddu áliti ESA sem breytti þeirri afstöðu. Þvert á móti mætti efast um, að ríkisábyrgð á skuldbindingum innistæðutryggingarsjóða standist almenn sjónarmið Evrópuréttar og slík ríkisábyrgð gæti ógnað fjármálastöðugleika  í ýmsum Evrópusambandsríkjum. 

Þá kysi ESA að líta fram hjá því, að innistæðueigendur Icesave hefðu þegar fengið fé sitt greitt úr breskum og hollenskum sjóðum. Með fréttum af bættum heimtum úr búi Landsbankans væri ljóst, að allur þorri krafna allra innistæðueigenda og tryggingasjóða í Bretlandi og Hollandi fengist greiddur. 

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks, sagði að því yrði ekki haldið fram, miðað við sögu málsins, að niðurstaða ESA komi á óvart. Niðurstaðan væri hins vegar alvarlegt mál. 

Sagðist Bjarni geta tekið undir það með Árna Páli, að Íslendingar teldu sig hafa sterkan málstað að verja.  Þá væri það umhugsunarefni, að ESA skuli halda áfram með málið undir forustu forseta, sem hefði greinilega á fyrri stigum málsins tekið afstöðu áður en fyrstu viðbrögð Íslendinga voru sett fram með formlegum hætti. Fullt tilefni hefði verið að gera athugasemdir við að forsetinn viki ekki sæti við afgreiðsluna.

Nú væri það verkefni Íslendinga að taka til varna. Það væri vilji íslensku þjóðarinnar, sem hefði birst í þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave-lögin í apríl. 

Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar, sagði að á fundi nefndarinnar í dag hefði verið góður samhljómur um að þingheimur standi saman um hvert skref sem tekið verður í framhaldinu. Einnig væri mikilvægt að vanda viðbrögð og taka tíma til að íhuga þau.

Einnig hefði komið fram ósk um að svör ESA yrðu greind mjög nákvæmlega og þau borin saman við svör sem íslensk stjórnvöld sendu stofnuninni fyrr á þessu ári.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði að í yfirlýsingu ESA birtust eftiráskýringar, m.a. að þær að Íslendingar hafi verið skuldbundnir til að komast að einhverri niðurstöðu.

Margt skondið væri í niðurstöðu ESA, m.a. þegar því væri haldið fram að Íslendingar hefðu í raun brotið af sér með því að menn hefðu ekki getað tekið peningana sína út úr Icesave-bankanum en í öllum öðrum Evrópuríkjum hefðu menn getað tekið peninga út úr bankanum í miðri fjármálakrísu. Ekki væri talið gilt, að ómögulegt hafi verið að halda bankanum opnum vegna þess að ári síðar hefðu menn haft fjármagn til að greiða innistæðurnar út.

Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, sagðist sammála þeirri túlkun Árna Páls um að gífurlega mikilvægt væri að halda samstöðunni, sem myndaðist þegar upphaflegu erindi ESA var svarað. „Nú þurfum við öll að standa saman og standa í lappirnar og klára þetta mál. Ég er viss um að við klárum það með sóma," sagði Margrét.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka