Rúmlegur tvítugur maður var í dag dæmdur í tíu mánaða fangelsi í héraðsdómi Suðurlands fyrir sérlega hættulega líkamsárás þegar hann stakk annan mann í bakið á Fiskideginum mikla á Dalvík síðasta sumar. Var maðurinn mikið ölvaður þegar árásin átti sér stað.
Hann mun þó einungis þurfa að afplána fjóra mánuði þar sem dómurinn frestaði fullnustu sex mánaða refsingarinnar og fellur hún niður að liðnum þremur árum frá uppsögu dóms.
Í dómnum kemur fram að maðurinn kvaðst lítið muna eftir atvikum. Hann greindi frá því að hafa byrjað neyslu áfengis kl. 16-17 á laugardeginum og drukkið einn kassa af bjór, eina flösku af Jägermeister og einn lítra af landa.
Kvaðst hann ekki þekkja brotaþola og ekki hafa séð hann áður en að þeir eigi sameiginlega vini. Ákærði kvaðst ekki hafa verið með hníf umrætt kvöld. Hann kvaðst muna eftir slagsmálum einhversstaðar á Dalvík sem margir hafi tekið þátt í og muna að hann hafi sjálfur lent í slagsmálum og á ákveðnum tímapunkti hafi honum verið haldið. Fram kom hjá ákærða að þar nærri hafi verið milli 20 til 30 manns. Síðan kvaðst ákærði ekki muna eftir sér fyrr en í lögreglubifreið.