Annasamt er á Alþingi og ljóst að stefnt er að frestun þingsins síðar í dag. 151. fundi þingsins lauk um kl. 13.20 en undir lok hans mælti Jóhanna Sigurðardóttir fyrir þingsályktunartillögu um frestun á fundum Alþingis frá 15. júní til 2. september 2011.
Ráðgert er að Alþingi komi saman til sérstaks hátíðarfundar miðvikudaginn 15. júní í tilefni af 200 ára afmæli Jóns Sigurðssonar forseta.
Alþingi kom svo saman til 152. fundar kl. 13.34. Þar voru m.a. samþykkt frumvörp um veitingu ríkisborgararéttar, um ráðstafanir í ríkisfjármálum, um gisináttaskatt, skeldýrarækt og þingsályktunartillaga um frestun á fundum Alþingis var einnig samþykkt.
Þá fór fram fyrri umræða um þingsályktunartillögu um stofnun prófessorsstöðu sem tengist nafni Jóns Sigurðssonar. Prófessorsstaðan verði við Háskóla Íslands en starfsskyldur þess sem henni gegnir verði m.a. við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum og í samstarfi við Háskólasetur Vestfjarða.
Hlé var síðan gert á fundinum og er ráðgert að hann hefjist aftur klukkan 14.40.