Bullandi ósætti stjórnarliða

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Golli

Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar og liðsmaður Vinstri grænna, var eini nefndarmaðurinn af alls níu sem studdi án fyrirvara svonefnt minna kvótafrumvarp Jóns Bjarnasonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þegar það var afgreitt úr nefnd á Alþingi í gærkvöldi.

Allir þrír fulltrúar stjórnarandstöðunnar greiddu atkvæði gegn frumvarpinu og einn af liðsmönnum stjórnarflokkanna, Björn Valur Gíslason, skrifaði ekki undir álit nefndarmeirihlutans. Þrír samfylkingarmenn, Ólína Þorvarðardóttir, Róbert Marshall og Helgi Hjörvar, gerðu fyrirvara.

Talsverðar breytingar voru gerðar á frumvarpinu frá því sem samkomulag varð um milli þingflokkanna á fimmtudagskvöld. Grein 2, um að kvóti fyrirtækja í jafnt bolfiski sem uppsjávarfiski skyldi skertur til að veiðiheimildir yrðu til ráðstöfunar í pottana svonefndu, var breytt að tillögu meirihlutans. Verður fyrirkomulaginu ekki komið á strax í haust heldur smám saman á þrem árum. Þegar var búið að fleygja út ákvæði um sérstakan strandveiðiflokk fyrir báta undir þrem tonnum. Í gær var ákveðið að hætta við ákvæði um að ráðherra gæti ákveðið mismunandi veiðigjald eftir tegund útgerðarinnar.

En hver verður afstaða sjálfstæðismanna þegar greidd verða atkvæði um frumvarpið?

Ólöf Nordal, varaformaður flokksins, sagði ljóst að sjálfstæðismenn væru á móti báðum kvótafrumvörpunum. Vissulega væri þó búið að lagfæra ýmislegt og rétt að reyna áfram að minnka skaðann.

Jón Gunnarsson á sæti í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd og segir ekki útilokað að menn styðji sumar breytingatillögurnar. „En við munum ekki styðja þetta frumvarp í heild sinni, bendum á að það hefur ekki farið fram nein skoðun á heildaráhrifum þess.“

Gert er ráð fyrir að atkvæði yrðu greidd um málið í dag. Mörg mál voru afgreidd í gær enda stefnt að þingfrestun í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert