Lögreglan í Lúxemborg hefur fryst eignir ákveðinna Íslendinga og félaga í þeirra eigu á bankareikningum þar í landi. Þetta staðfesti Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, í samtali við Morgunblaðið í gær.
Hann staðfesti einnig að um umtalsverðar fjárhæðir ákveðinna einstaklinga og félaga í þeirra eigu væri að ræða og ennfremur að kyrrsetning eignanna tengdist rannsóknum embættis hans á málefnum gamla Kaupþings.
„Á þessu stigi getum við ekki upplýst um hvaða einstaklinga og félög er að ræða, né hversu háar upphæðirnar eru sem hafa verið frystar, en þó get ég greint frá því að þessi kyrrsetning eigna tengist rannsóknum okkar á málefnum Kaupþings banka,“ sagði Ólafur Þór.
Sérstakur saksóknari sagði að kerfið í Lúxemborg væri talsvert frábrugðið hinu íslenska. Það væru sérstakir rannsóknardómarar þar, sem mæltu fyrir um aðgerðir eða rannsóknir hjá lögreglu.
„Embætti sérstaks saksóknara hér á landi undirbjó málið og sendi réttarbeiðni til rannsóknardómara í Lúxemborg, sem hefur nú gefið lögreglunni þar í landi fyrirmæli um að hefjast handa,“ sagði Ólafur Þór og bætti við: „Þetta er gert, að fengnum upplýsingum frá yfirvöldum í Lúxemborg, til þess að tryggja, eins og þegar um er að ræða kyrrsetningu eða haldlagningu, að verðmæti hverfi ekki á meðan við erum að ganga úr skugga um réttmæti eignarhaldsins.“
Aðspurður um hversu miklar upphæðir væri að ræða sem hefðu verið kyrrsettar, sagði Ólafur Þór: „Þetta er umtalsvert fé, en ég get á þessu stigi ekki nefnt fjárhæðina, því þá væri ég að gefa aðilunum hinum megin við borðið upplýsingar sem ég hef ekki áhuga á að veita og kynnu að skaða rannsóknarhagsmuni.“