Í hringiðu háloftakulda

Esjan var alhvít í gærmorgun.
Esjan var alhvít í gærmorgun. mbl.is/Árni Sæberg

Reykvíkingar, sem beðið hafa eftir sumrinu, tóku vafalaust eftir því í gærmorgun að Esjan blasti hvít við þeim í upphafi dags. Fyrstu níu dagar júnímánaðar eru köldustu dagar í Reykjavík og á sunnanverðum Faxaflóa frá árinu 1956.

„Vorið hefur verið kalt frá miðjum maí og ég minnist þess ekki að hafa séð svona mikinn snjó í Esjunni í júnímánuði,“ segir Páll Bergþórsson fyrrum veðurstofustjóri. Fremur svalt hefur verið í veðri að undanförnu og má búast við svölu veðri áfram næstu daga þó spáð sé skammgóðum vermi um helgina. Páll bendir á að þrátt fyrir að sumarið virðist fara fremur hægt af stað sé engin ástæða til að afskrifa það í heild sinni. „Bæði júlí og ágúst gætu verið mjög góðir, það er ekkert sem bendir til annars að svo stöddu,“ segir Páll og bætir við að það loftslag sem ríkt hefur á landinu að undanförnu sé í raun afleiðing tilviljana og að ekki sé um loftslagsumskipti að ræða.

Undir það tekur Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur. „Orsökin liggur í því að um er að ræða tilviljun sem veldur þessu. Allt í kringum landið er mildara loft en kaldur kjarni af lofti, sérstaklega háloftakulda, hefur sest að hér við land og hringsólað meira og minna um það,“ segir Einar. Hann bendir á að snemma sumars sé oft um að ræða leifar af síðbúnu vori fyrir norðan og þær aðstæður sem við búum við sem eyland eru þess eðlis að loftið hitnar síður. „Það er varmi á tiltölulega afmörkuðu svæði sem berst aftur upp og blandast við þetta kalda loft. Hafið gefur engan varma, heldur tekur það til sín sólarorkuna og hlýnar um nokkur brot úr gráðu við það en loftið ekki neitt,“ segir Einar.

Fyrstu dagana í júnímánuði hefur verið um að ræða háloftakulda í bland við fremur lága frostmarkshæð og telst slíkt vera heldur óeðlilegt. „Við erum inni í svalanum þó það gæti komið ágætis veður um helgina. Hafa verður það í huga að þegar snjóar í fjöll og jafnvel á láglendi fyrir norðan, þá endurkastast hátt hlutfall sólargeisla aftur út í stað þess að fara í upphitun,“ segir Einar. Er því ljóst að síðbúin leysing og snjór eru til þess fallin að seinka raunverulegu sumri. Einar bendir á að lokum að sú kuldatíð sem hefur verið að undanförnu virki í raun svalari en hún er í raun, einkum sökum þess hve langt er liðið frá seinasta tilfelli.

Veðráttan er mjög misjöfn

„Það er ljóst að búfénaður hefur ekki haft það sérstaklega gott í þessari veðráttu og töluvert kal í túnum í sumum sveitum,“ segir Guðný Harðardóttir hjá Búnaðarsambandi Austurlands, aðspurð hvernig ástand túna og búfénaðar sé fyrir austan. Hún segir gæsir hafa hrakist af hreiðrum sínum í hretinu sem leið og vísbendingar séu um að vaðfuglar séu margir ekki á hreiðrum sínum um þessar mundir líkt og eðlilegt væri. „Sem bóndi sjálf hef ég tekið eftir vaðfuglum allt í kringum íbúðarhúsið, svo þeir eru ekki að verpa á meðan,“ segir Guðný. Veðráttan fyrir austan er að mörgu leyti misjöfn að mati Guðnýjar. Sem dæmi nefnir hún að á ferð sinni um nærsveitir sínar hafi hún keyrt inn í krapaóveður.

Er því nokkuð ljóst að sumarið lætur bíða eftir sér þetta árið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert