Mæðginin Birna Kristín Lárusdóttir og Eyjólfur Sturlaugsson náðu í dag þeim merka áfanga að útskrifast sama daginn með meistarapróf frá Háskóla Íslands, hún í bókmenntum en hann í opinberri stjórnsýslu. Áfangi Birnu er enn merkilegri fyrir þær sakir að hún hóf menntaskólagöngu sína á sextugsaldri.
Halda þau saman upp á útskriftina í dag en Eyjólfur segir þau mæðginin þó ekki hafa verið samstiga á námsferlinum. Hlutirnir hafi aðeins atvikast svona. Hann segist stoltur af móður, sérstaklega þar sem hún hóf skólagöngu sína svo seint á lífsleiðinni.
„Ég myndi segja að þetta væri á við hundrað fjöll að takast á við þetta á sjötugsaldri,“ segir Eyjólfur en hann er skólastjóri í Auðarskóla í Dalasýslu.
Birna Kristín og maður hennar voru kúabændur á Efri-Brunná í Dalasýslu í 34 ár en árið 1997 fluttu þau á höfuðborgarsvæðið. Þá ákvað Birna að setjast aftur á skólabekk, þá 51 árs gömul.
„Ég hafði klárað landsprófið en þá voru orðin 30 ár síðan. Það var ekki nóg til að fara upp í menntaskóla. Því fór ég í Námsflokka Reykjavíkur og tók 9. og 10. bekkinn þar,“ segir Birna Kristín.
Að því loknu gekk hún í Flensborgarskólann í Hafnarfirði og lætur hún vel af reynslu sinni þar með „litlu börnunum“.
„Þau voru svo yndisleg, bæði unglingarnir og kennararnir. Þetta er mjög góður skóli, Flensborgarskóli. Ég var bara sú gamla. Ég var eins og amma þeirra.“
Fór í bókmenntir fyrir ömmu sína
Hún lét þó ekki staðar numið við stúdentsprófið heldur hóf hún að því loknu grunnnám í þjóðfræði við félagsvísindadeild Háskóla Íslands. Meistaraprófinu lauk hún svo í bókmenntum frá hugvísindadeild. Segist hún hafa ákveðið að fara í bókmenntirnar til þess að gera ömmu sinni, Elínborgu Lárusdóttir rithöfundi, skil.
Ritgerð Birnu Kristínar heitir „Hvað skyldi þér fénast í dag? Um förumenn Elínborgar Lárusdóttur“. Fjallar hún um líf og störf hennar en hún hóf að skrifa bækur um fimmtugt. Skrifaði hún um þrjátíu bækur, skáldsögur, ævisögur og leikrit.
Birna Kristín segist hiklaust mæla með því við eldra fólk sem hefur áhuga á því að mennta sig að láta slag standa. Það hafi þó verið einfaldara fyrir hana sjálfa en það er núna.
„Það er búið að leggja Námsflokka Reykjavíkur niður. Þannig hafa möguleikarnir minnkað fyrir fólk eins og mig að halda áfram námi.“